Fara í efni

Samstarf Heilsuakademíu Keilis og Landspítalans

Heilsuakademía Keilis og Göngudeild innkirtla- og efnaskiptasjúkdóma Landspítalans hafa undirritað samstarfssamning um verknámskennslu í fótaaðgerðafræði. Samningurinn markar tímamót í kennslu fótaaðgerðafræðinnar hér á landi þar sem hluti verknámsins færist nú í fyrsta skipti inn á sjúkrastofnun.

Samningurinn tryggir nemendum tækifæri til að takast á við alvarlegri tilfelli fótameina, undir leiðsögn lækna göngudeildarinna, en þeir hafa hingað til fengist við. Vilji Landspítalans til að undirrita samning sem þennan er viðurkenning á mikilvægi fótaaðgerðafræðinga innan íslenska heilbrigðiskerfisins og mun án nokkurs vafa opna augu fleiri um mikilvægi góðrar fótaheilsu og fyrirbyggjandi meðferða fótameina. Fyrstu nemarnir hafa nú þegar farið á vettvang og hefur samstarfið farið vel af stað.

Auk þess að taka hluta verknámsins á Landspítalanum hafa nemendur í fótaaðgerðafræði farið í tveggja daga heimsóknir til starfandi fótaaðgerðafræðinga og fylgst með þeim að störfum. Nemarnir hafa fengið þar góða innsýn í starfsumhverfi fótaaðgerðafræðinga og tækifæri til að spyrjast fyrir um hin ýmsu mál tengd starfinu. Mikil ánægja hefur verið með heimsóknirnar, bæði meðal nemanna og fótaaðgerðafræðinganna sjálfra og því stefnt á að heimsóknirnar verði fastur liður í verknámi námsbrautarinnar.

Það má því segja að mikill drifkraftur einkenni námsbraut í fótaaðgerðafræði hjá Heilsuakademíu Keilis og mikill vilji til að þróa brautina með það markmið að útskrifa hæfa fótaaðgerðafræðinga. Nemendum við námsbrautina hefur farið fjölgandi undanfarin misseri og hafa tveir síðustu hóparnir verið fullskipaðir.  Nýr hópur fer af stað í haust og er opið fyrir umsóknir. Nánari upplýsingar má finna hér. Áhugasamir eru hvattir til að senda inn umsókn sem fyrst eða senda inn fyrirspurnir á hak@keilir.net.