Fara í efni

Nýtt fyrirkomulag leiðsögunáms í ævintýraferðamennsku

English version

Nýtt kennslufyrirkomulag leiðsögunáms í ævintýraferðamennsku, þar sem bóklegir áfangar verða kenndir í fjarnámi, býður upp á meiri sveigjanleika nemenda á námstímanum.

Samkvæmt Ragnari Þór Þrastarsyni, forstöðumanni námsins, býður nýtt fyrirkomulag námsins upp á meiri möguleika fyrir þá sem eru búsettir utan höfuðborgarsvæðisins til að sækja sér hagnýtt nám í ævintýarferðamennsku. 

„Eftir sem áður fer helmingur námstímans fram víðsvegar um í náttúru Íslands. Við erum mikið með verklega áfanga á Suðurlandinu, auk þess sem nokkrir áfangar fara fram bæði á Norðurlandi og Suðausturhorni landsins“ segir Ragnar. „Megin breytingin milli ára er hinsvegar að bóklegir áfangar fara nú fram í fjarnámi, með stuttum staðarlotum í Keili, þannig að námið hentar vel þeim sem eru búsettir á landsbyggðinni eða vilja sveigjanleika í sínu námi.“

Námið opnar margar dyr

Leiðsögunám í ævintýraferðamennsku hjá Keili tekur einungis átta mánuði og snýst um þá hlið ferðmennskunnar sem er líkamlega krefjandi og ævintýraleg, líkt og flúðasiglingar, sjókajakróður, ísklifur og fjallamennsku svo fátt eitt sé nefnt. 

Námið er á háskólastigi og er unnið í samstarfi við Thompson Rivers háskólann í Kanada, en skólinn er einn sá virtasti í heiminum í dag í sérhæfðu námi í ævintýra- og afþreyingarferðaþjónustu. Allar einingar námsins eru matshæfar í framhaldsnám innan TRU á sviði ævintýraferðamennsku fyrir þá sem hyggja á áframhaldandi nám. 

Ævintýraferðamennska er vaxandi grein

Samkvæmt Ragnari veitir ástandið í ferðaþjónustunni um þessar mundir einstakt tækifæri til að sækja menntun og færni fyrir komandi tíma. „Ævintýraferðamennska hefur verið ein örast vaxandi grein innan ferðaþjónustunnar í heiminum í dag, en ævintýraferðamenn eru að jafnaði betur menntaðir, með hærri tekjur, og eyða talsvert lengri tíma og meiri peningum á ferðalögum sínum en hefðbundnir ferðamenn“, segir Ragnar.

Á næstu misserum verða gríðarleg tækifæri á Íslandi við að byggja enn frekar upp þessa grein ferðaþjónustunnar. „Hér er allt sem til þarf til að viðhalda ferðaþjónustunni, óspillt náttúra, hrikalegt landslag og rík menning. Þetta eru kjöraðstæður til að sækja sér sérhæft og hagnýtt leiðsögunám í fallegustu skólastofu landsins. Landinu sjálfu.“

Góður tími til að sækja sér menntun

Skólagjöldin eru um ein og hálf milljón króna, en innifalið í skólagjöldunum er aðgangur að sérhæfðum búnaði fyrir verklega áfanga, ásamt ferðum og gistingu á meðan á verklegum áföngum stendur. 

Námið er að fullu lánshæft hjá Menntasjóði (áður Lánasjóður íslenskra námsmanna) og fellur þar að auki undir Nám er tækifæri námsátaks VMST á komandi skólaári. „Núna er því einstakt tækifæri fyrir einstaklinga utan vinnumarkaðarins sem vilja sækja sér hagnýta framtíðarmenntun eða skerpa á færni sinni í afþreyingarferðaþjónustu“ segir Ragnar.

Frekari upplýsingar um námið