Fara í efni

Innritun hafin í nám í fótaaðgerðafræði á haustönn 2020

Umsóknarfrestur um nám í fótaaðgerðafræði á haustönn 2020 er til 29. apríl næstkomandi. Bóklegur hluti námsins fer fram í fjarnámi en staðlotur fara fram á Ásbrú í Reykjanesbæ. Miklir atvinnumöguleikar um allt land.

Keilir býður upp á nám í fótaaðgerðarfræði, hið eina sinnar tegundar á Íslandi. Keilir bauð í fyrsta skipti upp á námið vorið 2017 en þá hófu tíu nemendur nám við skólann. Nú stunda hátt í tuttugu nemendur fótaaðgerðafræði við skólann.

Hvað gera fótaaðgerðafræðingar?

Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta. Fótaaðgerðafræðingar meta ástand fóta, greina fótamein og meðhöndla þau fótamein, sem ekki krefjast sérstakrar læknisfræðilegrar meðferðar. Þeir ráðleggja um heilbrigði fóta, meðferð og forvarnir fótameina og þau úrræði sem finnast í heilbrigðiskerfinu þar að lútandi. Skipuleggja, framkvæma og meta eigin vinnu í samræmi við viðurkennda gæðastaðla og halda sjúkraskrár samkvæmt lögum þar um. 

Hvernig fer námið fram?

Nám í almennum kjarna og heilbrigðisgreinum taka 3 - 4 annir og er gert ráð fyrir því að nemendur hafi alla jafna lokið því námi áður en þeir hefja nám í sérgreinum fótaaðgerðafræðinnar. Sérnámið er skipulagt sem þriggja anna nám og eru áfangarnir kenndir á þremur samliggjandi önnum. Bóklegir áfangar eru kenndir í fjarnámi með reglulegum staðlotum og verklegir áfangar eru kenndir í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ.

Nánari upplýsingar um námið má nálgast hér