Fara í efni

Fótaaðgerðafræði nýtur vaxandi vinsælda

Mikil aðsókn hefur verið í nám í fótaaðgerðafræði hjá Heilsuakademíu Keilis undanfarin misseri. Mikil vöntun virðist vera á fótaaðgerðafræðingum hér á landi þar sem sífellt fleiri nýta sér þjónustu þeirra. Opnað var fyrir umsóknir í næsta hóp á dögunum og eru sætin óðum að fyllast.

Nám í fótaaðgerðafræði miðar að því að þjálfa færni og hæfni nemanda til þess að standast kröfur heilbrigðisþjónustunnar um fagleg vinnubrögð ásamt nákvæmni og áreiðanleika í starfi. Námið býr nemandann undir störf við meðferð fótameina skjólstæðinga innan og utan stofnana. Í náminu er sérstök áhersla lögð á raunveruleg viðfangsefni þar sem fyrirmæli, verklýsing og vinnuaðferðir liggja fyrir. Jafnframt fá nemendur þjálfun í að takast á við ófyrirséð verkefni og aðstæður sem krefjast þekkingar, hugkvæmni, hæfni í samskiptum og rökvísi.

Námstíminn er þrjú ár í heildina og sérgreinahluti námsins, sem kenndur er við Heilsuakademíu Keilis, er eitt og hálft ár eða þrjár annir. Umsækjendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri og hafa lokið að mestu leiti námi í grunnáföngum námsbrautarinnar til að eiga möguleika á að komast að í sérgreinahlutanum.

Skemmtilegt starf og góðir atvinnumöguleikar

Námið er hið eina sinna tegundar á Íslandi og býður uppá góða atvinnumöguleika um land allt og hafa útskrifaðir nemendur gjarnan hafið störf á fótaaðgerðastofum eða stofnað sínar eigin stofur. Skjólstæðingar fótaaðgerðafræðinga er gjarnan fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir. Sem dæmi má nefna ungt íþróttafólk og eldra fólk en allir skjólstæðingar eiga það sameiginlegt að vera í leit að betri fótaheilsu.

Löggilt starfsgrein

Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsfólk. Þeir sem ljúka námi á brautinni geta sótt um starfsheitið fótaaðgerðafræðingur á grundvelli reglugerðar nr. 1107/2012 og sótt um starfsleyfi til Embætti landlæknis. Eingöngu þeir sem hafa öll tilskilin leyfi mega nota starfsheitið fótaaðgerðafræðingur.

Nánari upplýsingar um nám

Sækja um í nám í fótaaðgerðafræði