Fara í efni

Skólasetning ÍAK og fótaaðgerðafræði

Skólasetningar í ÍAK einka- og styrktarþjálfaranámi og fótaaðgerðafræði verða mánudaginn 16. ágúst næstkomandi. Að þessu sinni verða athafnirnar eingöngu á rafrænu formi en skólasetning ÍAK hefst kl. 10 og skólasetning í fótaaðgerðafræðinámi hefst kl. 13. Nemendur verða boðnir velkomnir og stiklað á stóru um það sem framundan er í náminu.

ÍAK nám

ÍAK einka- og styrktarþjálfaranámslínurnar eru sniðnar til að mæta þörfum ýmissa hópa; fólki sem vill starfa sem þjálfarar, þjálfurum sem vilja bæta við þekkingu sína, almenningi sem vill öðlast þekkingu á sviði þjálfunar og næringar, íþróttafólki sem vill vera meðvitað um eigið líkamlegt hreysti, sjúkraþjálfurum og íþróttafræðingum sem vilja bæta við menntun sína á sviði sérhæfðrar þjálfunar. ÍAK einkaþjálfaranámið er ítarlegasta einkaþjálfaranám sem í boði er á Íslandi. Námið er viðurkennt af menntamálaráðuneytinu sem starfsnám á þriðja hæfniþrepi og skiptist í kjarna, heilbrigðisgreinar og sérgreinar einkaþjálfunnar. ÍAK styrktarþjálfari er einstakt nám fyrir fagfólk í styrktar- og ástandsþjálfun íþróttafólks á afreksstigi. Námið er mjög hagnýtt, hnitmiðað og skipulagt af íslenskum og erlendum sérfræðingum úr heimi styrktarþjálfunar.

Mikil aðsókn var í námið nú sem fyrri ár og hefja alls 45 nemendur nám á mánudag.

Fótaaðgerðafræði

Keilir hefur boðið upp á nám í fótaaðgerðafræði frá febrúar 2017 og stunda nú á annan tug nemenda námið. Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta. Fótaaðgerðafræðingar meta ástand fóta, greina fótamein og meðhöndla þau fótamein, sem ekki krefjast sérstakrar læknisfræðilegrar meðferðar. Þeir ráðleggja um heilbrigði fóta, meðferð og forvarnir fótameina og þau úrræði sem finnast í heilbrigðiskerfinu þar að lútandi. Skipuleggja, framkvæma og meta eigin vinnu í samræmi við viðurkennda gæðastaðla og halda sjúkraskrár samkvæmt lögum þar um. 

Nám í fótaaðgerðafræði miðar að því að þjálfa færni og hæfni nemanda til þess að standast kröfur heilbrigðis- og félagsþjónustunnar hverju sinni um fagleg vinnubrögð, nákvæmni og áreiðanleika. Námið býr nemandann undir störf við meðferð fótameina skjólstæðinga innan og utan stofnana. Sérstök áhersla er lögð á að þjálfa færni í að takast á við raunveruleg viðfangsefni þar sem fyrirmæli, verklýsing og vinnuaðferðir liggja fyrir. Jafnframt fær nemandinn þjálfun í að takast á við ófyrirséð verkefni og aðstæður sem krefjast þekkingar, hugkvæmni, hæfni í samskiptum og rökvísi. Við skipulag kennslu er mikilvægt að taka mið af þörfum starfsgreinarinnar. 

Færri komust að en vildu í fótaaðgerðafræðinám þetta haustið en öll laus sæti voru fyllt eða 12 alls.