Fara í efni

Fjórir nemendur Keilis í landsleik Íslands og Skotlands

Dagný Brynjarsdóttir í leik með Portland Thorns, en hún útskrifast fyrst allra sem NPTC einkaþjálfar…
Dagný Brynjarsdóttir í leik með Portland Thorns, en hún útskrifast fyrst allra sem NPTC einkaþjálfari
Í landsleik Íslands og Skotlands í fótbolta sem fram fór á Algarvemótinu á dögunum voru fjórir Nordic Fitness Education - NPTC einkaþjálfarar frá Keili. Þrjár konur í íslenska liðinu og ein í því skoska.
 
Landsleikurinn fór fram í Portúgal þann 4. mars síðastliðinn og voru meðal leikmanna, Dagný Brynjarsdóttir, sem var fyrst allra til að ljúka NPTC náminu og Sigríður Garðarsdóttir, sem hefur ný lokið náminu. Glódís Viggosdóttir var einnig í leikmannahóp Íslands og þá spilaði Fiona Brown seinni hálfleik í landsliði Skota, en þær eru báðar núverandi NPTC nemendur hjá Keili. 
 
Einkaþjálfaranám Keilis er gæðavottað af Europe Active
 
EREPS (evrópsku einkaþjálfarasamtökin) tóku eftir þessu og birtu frétt á heimasíðunni sinni enda er námið gæðavottað þeim. Stofnunin, sem hefur umsjón með gæða- og vottunarmálum einkaþjálfara og líkamsræktarstöðva í Evrópu, gæðavottaði á síðasta ári allt einkaþjálfaranám Keilis, bæði ÍAK einkaþjálfaranámið og NPTC. Með gæðavottuninni verða útskrifaðir einkaþjálfarar úr bæði ÍAK einkaþjálfaranámi Keilis og NPTC náminu framvegis skráðir í EREPS (European Register of Exercise Professionals) gagnagrunn Europe Active og öðlast þar með evrópska vottun á færni sinni. 
 
Landsliðskona í knattspyrnu fyrst til að útskrifast
 
Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, var fyrsti nemandinn til að útskrifast úr NPTC náminu árið 2018. „Ég var að leita að einkaþjálfaranámi sem ég gat tekið í fjarnámi á meðan ég var í atvinnumennsku erlendis“ segir Dagný, en hún hafði áður lokið háskólanámi í Bandaríkjunum.
 
Hún stefnir á að nýta reynsluna og námið til að geta boðið upp á fjarþjálfun samhliða atvinnumennsku í fótbolta. „Eftir að ég lauk NPTC náminu fór ég í áframhaldandi nám hjá Keili í ÍAK styrktarþjálfun sem ég lýk vorið 2019. Ég mun nýta reynsluna af báðum þessum námsleiðum þegar ferlinum lýkur. NPTC námið hentar vel þeim sem hafa áhuga og þekkingu á líkamsrækt og þjálfun, sérstaklega þar sem um er að ræða fjarnám.“
 
NPTC námið hentar þannig bæði á erlendum markaði sem og þeim sem vilja stunda einkaþjálfaranám samhliða vinnu. Nánari upplýsingar um námið má finna á heimasíðu Keilis.