Fara í efni

Fjölmenn brautskráning ÍAK styrktarþjálfara

22 nemendur brautskráðust sem ÍAK styrktarþjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ, 12. júní 2020. Þetta er stærsti útskriftarhópur styrktarþjálfara á Íslandi til þessa, en með útskriftinni hafa 92 einstaklingar lokið styrktarþjálfaranámi frá skólanum og samtals yfir sjöhundruð þjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis.
 
Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp og afhenti prófskírteini ásamt Haddý Önnu Hafsteinsdóttur, verkefnastjóra. 
 
Anna Guðný Elvarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur með 9,82 í meðaleinkunn sem er næst besti árangur í náminu frá upphafi. Hún fékk TRX bönd frá Hreysti sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Reginn Þórarinsson flutti ræðu útskriftarnemenda fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis.
 
ÍAK styrktarþjálfaranámið er sniðið til að mæta þörfum fólks með grunnþekkingu á íþrótta- og þjálfarafræðum og vilja bæta við þekkingu sína til að geta unnið einstaklingsmiðað með styrktar- og ástandsþjálfun íþróttamanna. Námskeiðið nýtist einnig íþróttamönnum sem vilja ná hámarksárangri í sinni íþrótt.
 
Fjölmennasta útskrift í sögu Keilis
 
Keilir útskrifaði samtals 209 nemendur þennan dag og er þetta fjölmennasta brautskráning nemenda skólans frá upphafi. Samtals hafa nú 3.858 nemendur lokið námi við deildir skólans sem var stofnaður á Ásbrú í Reykjanesbæ í maí 2007.  Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp auk þess sem Þorgrímur Þráinsson flutti hátíðarræðu. Vegna aðgangstakmarkanna var athöfnin send út í beinu streymi á samfélagsmiðlum Keilis.
 
Myndir frá útskrift Keilis 12. júní 2020 (ljósmyndari: Oddgeir Karlsson)