Fara í efni

Ávarp útskriftarnemenda í leiðsögunámi

Elín Lóa Baldursdóttir
Elín Lóa Baldursdóttir

Föstudaginn 5. júní fór fram brautskráning nemenda í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku (Adventure Sport Certificate) á vegum Keilis og Thompson Rivers University í Kanada. Var þetta í annað skipti sem brautskráðir eru nemendur úr náminu, en viðbrögð meðal nemenda og ferðaþjónustuaðila við náminu hafa verið gífurlega góð síðan fyrst var boðið upp á námið haustið 2013. 

Við athöfnina fengu 14 nemendur staðfestingu á að hafa lokið átta mánaða háskólanámi í ævintýraferðamennsku. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp, en þar kom meðal annars fram að allir nemendur hafa í kjölfar námsins fengið starf í ævintýraferðamennsku, auk þess sem nokkrir þeirra hafa fengið staðfestingu á áframhaldandi skólavist í Thompson Rivers University við framhaldsnám í greininni.
 
Námið er á háskólastigi og tekur átta mánuði þar sem helmingur þess fer fram víðsvegar um í náttúru Íslands. Elín Lóa Baldursdóttir, nemandi í ævintýraleiðsögunáminu, fékk gjöf frá GG sjósport sem viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 8.87 í meðaleinkunn og flutti hún einnig ávarp útskriftarnema. Hægt er að lesa ræðuna hér fyrir neðan.
 

 
Kæru kennarar, starfsfólk og aðrir gestir. Elsku Raggi, Arnar og skólafélagar.  
                                      

Mikið leið þetta nú hratt. Fyrir aðeins nokkrum mánuðum stóðum við, ævintýraleiðsögunemar, í portinu á bakvið Keili, hálf vandræðanleg að reyna að  finna eitthvað til að segja um okkur sjálf. Eitthvað sem væri ekki of hallærislegt. Eitthvað til að reyna nú að kynna okkur fyrir hinum.  Á sama tíma spáðum við og spekúleruðum. Hugsuðum, hvernig verður þetta ár? Út í hvað er ég nú eiginlega komin?

Það að vera í námi felur í sér að vera stöðugt að skora á sjálfan sig. Námið í íþróttaakademíunni hér við Keili var engin undantekning á því. En það er það fallega við að vera í skóla og það sem gerir það að vera í námi svona krefjandi. Það að þurfa dag eftir dag að stíga út fyrir þægindarammann sinn og prófa  eitthvað nýtt. Jafnvel að horfast í augu við eitthvað sem hræðir mann. Fyrir sumum var það kannski verklegi hluti námsins sem reyndist hvað mest krefjandi, hvort sem það var okkar tilviki að synda í Tungufljóti, treysta einhverri línu meðan maður hangir utan í klettavegg eða læra að ganga á broddum á skriðjökli. Fyrir öðrum voru áskoranirnar ritgerðarsmíðarnar, verkefnin og fyrirlestrarnir og fyrir enn öðrum það að kynnast nýju fólki og vinna saman í hóp.

Það myndast einhver sérstakur andi í svona námi eins og þessu, þar sem mikil þörf er á að treysta félögum sínum. Hvort sem það er þegar þú treystir einhverjum fyrir að tryggja þig í klifri eða að treysta manneskjunni sem bíður tilbúin með kastlínuna fyrir neðan fossinn sem þú, af einhverri ástæðu, ákvaðst að demba þér niður á kayak. Það eru því forréttindi að fá að vera hluti af hóp þar sem maður treystir fólki það vel að maður leyfir sér að sýna bæði styrkleika sína en ekki síst veikleika. Þegar hópurinn er orðinn það góður að þau sem í honum eru geta lesið hvort annað og hvernig þeim líður. Hvort sem því fylgir að ?hæfæva? viðkomandi eftir að honum gengur vel eða taka eftir því þegar einhver er stressaður á prófadegi og fatta að kannski það eina sem hann þarf til að ganga betur á prófinu er að hrista hann aðeins og heimta að gefa honum ?chest-bump?.

Það að vera í góðum hóp gerir það auðveldara að takast á við áskoranir og að prófa eitthvað nýtt. Hópurinn er nefnilega sterkari en einstaklingurinn og í mínu tilviki tók ég eftir að eftir því sem leið á árið og eftir því sem ég kynntist krökkunum í náminu meira, því betur gekk allt. Það er styrkur af því að hafa gott fólk í kringum sig sem oftar en ekki veit hvað þú getur betur en þú sjálfur og ýtir manni lengra en maður hefði áður trúað að væri hægt.

Nú þegar þessu viðburðarríka ári er að ljúka er pínu erfitt að horfast í augu við að þetta sé búið. Því fylgja súrsætar tilfinningar, mikil gleði og tilhlökkun yfir því sem var og því sem er framundan, en einnig svolítil sorg á sama tíma. Sérstaklega yfir því að kveðja hópinn góða.

Ég er stundum spurð að því hvernig mér hefur fundist í náminu, hvort ég mæli með því. Og ætli besta svarið við því sé ekki að ef ég gæti þá myndi ég gera þetta allt aftur.