Fara í efni

Aukið hungur í ævintýri

Linas Kumpaitis er 35 ára ævintýraleiðsögumaður frá Litháen. Linas hefur alla tíð verið náttúruunnandi og naut þess að ferðast um og skoða náttúruna. Hann hafði það þó alltaf á tilfinningunni að hann gæti notið tímans betur og verið öruggari – hafði nagandi tilfinningu að hann væri ekki að gera hlutina alveg rétt, væri illa undirbúinn og að taka of miklar áhættur.

Eftir þunga vinnutörn við fjölskyldufyrirtækið í Litháen ákvað hann að taka sér langt frí. Við eftirgrennslan fann hann sjálfboðastarf á Íslandi og ákvað að slá til. „Verkefnið var árlangt og það var nægur tími fyrir mig til þess að falla fyrir þessu frábæra landi og einstöku náttúrunni sem hér er að finna“ segir Linas. Þegar Linas heyrði af námi Keilis í ævintýraleiðsögn hafi hann stokkið á tækifærið. „Eftir að hafa lokið náminu finnst mér ég mikið betur undirbúinn. Það var svo margt gagnlegt sem ég lærði en mikilvægast af öllu var lexían að fara aldrei á fjall einn og óundirbúinn. Ef þú villt prófa stakt ævintýri mæli ég með því að ráða reyndan ævintýraleiðsögumann. Ef þig dreymir um að starfa við ævintýraferðamennsku mæli ég með því að sækja þér menntun“.

Linas segist eiga svo margar góðar minningar af ævintýraleiðsögustarfinu að erfitt sé að velja einhverja eina sem stendur upp úr en segir bestu tilfinninguna vera við lok ánægjulegrar ferðar og viðskiptavinirnir eru ánægðir og uppörvaðir.

Frá námslokum hefur Linas starfað sem leiðsögumaður hérlendis. Í frítímanum hefur hann ferðast um heiminn. Hann segir leiðsögustarfið frábær leið til þess að kynnast fjölbreyttum hópi fólks og eignast frábæra vini. „Þekkingin sem ég öðlaðist í náminu við Keili/TRU hefur reynst mér vel. Það lagði góðan grunn að starfsframa mínum, þó ég viti að það nám er ekki endirinn. Ég hef mikla ástríðu fyrir starfinu mínu og mun halda áfram að mennta mig og bæta við þekkingu mína á ferðaþjónustu. Ég er þeirrar skoðunar að þegar þú nærð ákveðnu færnistigi á ákveðnu sviði eigir þú að stofna fyrirtæki á því sviði. Það er mitt næsta stóra ævintýri.“

Linas horfir björtum augum til framtíðarinnar þrátt fyrir erfiðleika heimsfaraldursins og segist fullur trúar um að hann auki bara á hungur fólks fyrir ferðalögum og ævintýrum.

Meira um nám í ævintýraleiðsögn