Fara í efni

Fimm ráð fyrir fjarvinnu

Samkomubann og lágmörkun starfsemi innan veggja fyrirtækja hefur sett mörg okkar í þá ókunnu stöðu að vinna heima. Einhverjir sjá slíka tilbreytingu í hyllingum, huggulegar stundir með kertaljós og fartölvuna í kjöltunni, meðan aðrir hafa áhyggjur af því að koma litlu í verk sökum skorts á formfestu. Báðar sýnir eiga rétt á sér en hvorug er án galla. Við höfum því tekið saman fimm ráð til þess að viðhalda virkni, heilbrigði og vellíðan á meðan fjarvinnu stendur.

 

1. Skiptu deginum upp

Við erum vanafastar verur og því reynist það okkur erfitt þegar botninn fellur skyndilega úr rútínunni. Því getur það reynst gagnlegt að halda henni við að nokkru leiti. Vakna á svipuðum tíma og vanalega þó ekki sé nauðsynlegt að mæta á tiltekinn stað á tiltekinni stundu, hafa fataskipti úr „kósýfötunum“ og yfir í eitthvað sem kemur huganum í vinnuandann og á skilmerkilegan máta hefja vinnudaginn. Gott er að vera með ákveðinn verkefnalista fyrir hvern vinnudag og setja sér dagskrá. Það hjálpar til við að halda rótfestu og draga úr líkunum á því að verða truflunum heimilisins að bráð og gleyma sér í uppvaskinu.

Þá eru skilmerkileg lok á vinnudeginum alveg jafn mikilvæg ef ekki mikilvægari. Þegar við tökum vinnuna með okkur heim eiga línurnar þar á milli oft til að verða óskýrar. Því er gott að viðhalda vanalegum lokatíma vinnudags, þar sem þeim verkefnum sem unnið er að er lokað og tölvupóstinum leyft að ná góðum fegrunarblund til næsta morguns. Það gæti reynst vel að skipuleggja eitthvað við lok dags sem er í skörpu mótvægi við vinnudaginn – s.s. skipta úr vinnufötunum, hitta nágranna, vin eða maka í kaffibolla, hringja í einhvern nákominn sem er í einangrun eða fara í göngutúr.

 

2. Vandaðu vinnuaðstöðuna

Það er leitt að sprengja sápukúluna þetta snemma í ferlinu, en mörgum kann að hafa grunað þetta fyrir: vinna í sófanum með fartölvuna í fanginu við kertaljós skapar óþarfa álag á líkamann.

Gættu að því að lýsingin sé nægilega góð svo þú þurfir ekki að reyna á augun við það að lesa á blað eða of skörp skil séu milli birtunnar af skjánum og birtu í umhverfinu. Slík birta eykur líkurnar á lélegri líkamsstöðu þar sem við verðum hokin við að reyna að lesa af blaðinu eða höfuðverk vegna áreynslu á augun.

Til þess að forðast lélega líkamsstöðu og bakverkinn sem henni fylgir er mikilvægt að gera ráðstafanir í vinnuaðstöðunni. Það getur reynst vel að setja fartölvuna ofan á kassa eða bókastafla og nota svo utan á liggjandi mús og lyklaborð. Þannig er skjárinn í augnhæð en vinnuplássið þó í eðlilegri hæð.

Þá getur verið gott að skipta á milli þess að vinna standandi og sitjandi eftir getu. Líkamar okkar eru ekki hannaðir til þess að vera í sömu stöðu til lengdar og blöndun getur því hjálpað til við að draga úr eymslum.

 

 3. Bættu í samskiptin

Innan veggja skrifstofunnar eru samskipti við samstarfsfélaga svo auðveld og vanabundin að oft áttum við okkur ekki á vægi þeirra fyrr en nálægðin er ekki lengur til staðar. Aukin fjarlægð kann að valda rótleysistilfinningu og einmanaleika en slíkar tilfinningar draga oft hvata og framleiðni í vinnu. Því er mikilvægt að huga að því að halda samskiptaleiðum opnum og eiga í virkum samræðum við vinnufélaga í gegnum daginn.

Ein leið til þess gæti verið að ræða við næsta yfirmann um að halda stutta stöðufundi við upphaf og endir hvers vinnudags. Þannig er hægt að fara yfir verkefni dagsins, hverju þarf að koma í verk, hvernig gengur og hvernig dagurinn gekk. En við erum gjörn á að líta svo á að áhyggjur okkar eða vangaveltur séu ekki tölvupóstsins virði.

Til þess að auka á skynjaða nálægð er einnig gott að halda fjarfundi í gegnum búnað sem bíður upp á myndspjall s.s. Microsoft Teams, Skype, Zoom eða Workplace. Það dregur oft úr formlegheitum í samtalinu og viðmælandinn virðist nær.

 

 4. Taktu þér reglulega pásu

Það er góður vani að taka sér stutt hlé á um 20 mínútna fresti og teygja aðeins úr sér. Teygja á höndum fyrir ofan höfuð, snúa upp á hrygginn, liðka öklana og standa aðeins upp.

Mikilvægt er að huga að hreyfingu og heilsurækt á meðan þessu tímabili stendur. En það getur reynst vel að fara í reglulega göngutúra eða gera stuttar æfingar heima fyrir.

 

 5. Haltu jákvæðu hugarfari

Þetta ástand reynist okkur flestum stressvaldur: neikvæðar fyrirsagnir, áhyggjur af heilsu vina og vandamanna, mögulegur klósettpappírsskortur … og svo framvegis og svo framvegis. En opin og virk samskipti bæði við vinnufélaga og vini geta hjálpað við að bægja stressinu frá. Berum virðingu hvert fyrir örðu, sýnum þeim skilning og styðjum við bakið á þeim sem virðast hjálpar þurfi.