Skólareglur

Samskipti

Nemendur, kennarar og aðrir starfmenn skulu sýna hverjir öðrum kurteisi og virðingu í öllum samskiptum.

Umgengni

Nemendur skulu ganga snyrtilega um skólann og hans nánasta umhverfi. Neysla á matvælum, sælgæti og drykkjum er óheimil í fyrirlestrarsal og verkefnastofum. Öll neysla áfengis og vímuefna er bönnuð með öllu innan veggja skólans og umhverfi hans. Brot á þeim reglum geta leitt til tafarlausrar brottvísunar úr skólanum.

Vinnuhelgar í fjarnámi

Æskilegt er að nemendur mæti á allar vinnuhelgar. Kennarar leggja oftast fyrir verkefni sem skilast á vinnuhelgi og það er mikilvægt að hafa í huga að einungis þeir nemendur sem taka þátt í vinnuhelgi, hvort sem er á staðnum eða fjarfund, hafa rétt á að skila því verkefni. Þessi verkefni eru hluti af verkefnaeinkunn nemandans. Mikilvægt að nemendur mæti stundvíslega á vinnuhelgar til að koma í veg fyrir truflun.

Mætingarskylda í staðnámi

70% skyldumæting er í einstaka áfanga en 80% í símatsáfanga. Þá er 100% skyldumæting í alla verklega tíma. Nemendur missa próftökurétt ef mætingaskyldu er ábótavant. Mæti viðkomandi 15 mín of seint í verkefnatíma telst hann ekki hafa mætt. Mikilvægt er að nemendur mæti stundvíslega í allar kennslustundir til að koma í veg fyrir truflun. Nemendum er óheimilt að rápa á milli verkefnahópa nema með leyfi frá kennara.

Verkefni

Nemendum ber að skila þeim fjölda verkefna sem kennari leggur fyrir í hverju fagi. Mikilvægt er að nemendur geri sér grein fyrir því að þeir verða að gera verkefni og ritgerðir í samræmi við fyrirmæli kennara og er í alla staði óheimilt að nýta sér hugverk annarra í ritgerðum og eða verkefnum, nema heimilda sé getið í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð. Ef nemandi brýtur reglur varðandi verkefnavinnu eða ritgerðasmíð, fær hann einkunnina 0.

Íhlutun

Brot á reglum skólans kalla á að viðurlögum verði beitt og getur leitt til brottvísunar úr skóla. 

  • Viðurlög við fyrsta broti: Forstöðumaður / deildarstjóri ræðir við nemandann og veitir honum munnlega áminningu.
  • Viðurlög við öðru broti: Forstöðumaður / deildarstjóri veitir nemanda skriflega áminningu þar sem fram kemur að hægt sé að skjóta ákvörðuninni til kennslunefndar. 
  • Viðurlög við þriðja broti: Við þriðja brot skýtur forstöðumaður / deildarstjóri málinu til kennslunefndar sem víkur nemandanum úr skóla. Kennslunefnd afhendir nemanda skriflega brottvísun.