Lokapróf og próftökuréttur

Námsmat í Keili er mjög fjölbreytt eftir áföngum og ákveður kennari hvaða námsmat hentar hans áfanga. Ef kennari er með lokapróf þá hafa þau ekki meir en 50% vægi af lokaeinkunn nemenda. Prófafyrirkomulag skal liggja fyrir í upphafi annar í námsskeiðslýsingu.

Lokapróf eru haldin almennt haldin á sal, yfirsetufólk er til staðar, en gert er ráð fyrir að kennari og prófstjóri séu einnig tiltækir á staðnum.

Til þess að nemandi hafi próftökurétt þá þarf hann að hafa náð 5 í meðaleinkunn úr verkefnahluta námssviðsins. Ef nemandi nær ekki tilskyldri lágmarkseinkunn þá telst hann fallinn á verkefnaeinkunn og telst því fallinn á námssviðinu.

Ef nemandi er veikur í lokaprófi eða barn nemanda, þá á hann rétt á að taka sjúkrapróf. Hann þarf að skila vottorði þegar hann skráir sig í sjúkraprófið. Nemandi sem mætir í sjúkrapróf á ekki kost á upptökuprófi ef hann nær ekki prófinu.

Nemandi sem ekki nær lágmarkseinkunn 5 á misserisprófi á rétt á að fara í upptökupróf. Fær viðkomandi þá hæst einkunnina 5 fyrir prófið. 

Ef nemandi brýtur reglur um próftöku eða hefur rangt við fær hann einkunnina 0 og skal beittur viðurlögum. Ef nemandi mætir ekki í próf eða gengur út úr prófi fær hann einkunnina 0 og þarf að fara í upptökupróf til að ljúka námssviðinu.

Komi upp ágreiningur um námsmat á lokaprófi á nemandi kærurétt með ákveðnum skilyrðum og á þá rétt á prófdæmingu óháðs prófdómara sem sker úr um ágreining námsmats. Prófsýning er staður og stund fyrir afgreiðslu slíkra mála. Þá getur nemandi fengið að skoða prófaúrlausn og einkunn og farið yfir málin ásamt kennara í viðkomandi fagi. Ef nemandi hefur hug á að kæra námsmat prófs má kennari ekki afhenda honum prófúrlausnina, þar sem prófúrlausn skal vera í vörslu kennara eða annarra starfsmanna skólans uns prófdómari tekur við henni. Nemandi á þó kost á ljósriti prófaúrlausnarinnar. 
 

Ef kennari telur eftir ítrekaðar athugasemdir nemenda að annmarkar kunni að vera á lokaprófi, ellegar ef kennari hefur þurft að sitja undir ásökunum um slíkt án þess að telja að þær eigi við rök að styðjast hefur hann þann kost að láta skjóta prófinu í dóm óháðs prófdómara. Það gerir hann með því að fara fram á slíkt við umsjónarmann Háskólabrúar sem tekur að sér framkvæmd málsins.

Prófareglur 

 • Prófstofu er  lokað um leið og uppgefinn próftími hefst. Nemendur skulu vera mættir í prófstofu a.m.k. 5 mínútum áður.
 • Óheimilt er með öllu að hafa samband við aðra nemendur eða óviðkomandi aðila á próftíma og skal nemandi hafa slökkt á öllum samskiptatækjum á meðan á prófi stendur.
 • Slökkt skal vera á GSM símum og þeim skal skilað á tiltekinn stað ásamt yfirhöfnum og töskum.
 • Nemendur skulu hafa með sér gild skilríki með mynd og hafa þau aðgengileg fyrir prófyfirsetufólk á meðan á prófi stendur.
 • Óheimilt er að yfirgefa prófstofu fyrstu klukkustundina í prófum sem eru lengri en 2 klst.
 • Óheimilt er með öllu að yfirgefa prófstofu (á líka við um salernisferðir) og koma inn aftur í prófum sem eru tvær klukkustundir eða styttri. Þurfi nemandi af einhverjum gildum ástæðum undanþágu frá þessari reglu skal hann vera í sambandi við námsráðgjafa a.m.k. 24 klst. fyrir próf.
 • Nemandi skal skila öllum prófgögnum að prófi loknu, þar með talið rissblöðum, prófbókum og prófinu sjálfu.
 • Ef nemandi lýkur prófi áður en próftíma lýkur skal hann rétta upp hönd og láta yfirsetu vita, skila úrlausn en skilja allt dót, þar með talið tölvur eftir á borði og fara hljóðlega út.
 • Tóbaksneysla er ekki leyfileg á meðan á próftíma stendur og passa skal upp á að neysla matvæla valdi ekki truflun í prófstofu t.d. vegna lyktar, ofnæmis, hávaða o.fl.
 • Nemandi skal merkja prófblöð vel með nafni, kennitölu og dagsetningu.
 • Öllum frágangi á prófúrlausn skal vera lokið innan próftímans.

Próf tekin á tölvu

 • Ef próf er tekið á tölvu þarf nemandi að vista prófið í tölvuna sína undir eigin nafni, með því að fara í „save target as“ og vista það í ákveðna möppu.
 • Skila skal tölvuprófum á skilahólf í moodle og einnig skal senda afrit á prof@keilir.net. Lendi nemandi í vandræðum með að skila prófi skal hann láta yfirsetu vita þannig að hægt sé að kalla til tölvumann til að leysa úr vandanum.
 • Nemandi skal ávallt koma við hjá tölvuþjónustunni og staðfesta skil á prófi sínu áður en hann yfirgefur próftökustað.

Próf tekið á pappír

 • Á prófborði eiga einungis að vera prófgögn, skilríki og leyfileg hjálpargögn samkvæmt fyrirmælum hverju sinni. Pennaveski skal geyma undir prófborði.
 • Hafi nemandi af misgáningi tekið með sér óleyfileg gögn ber honum strax að afhenda þau prófyfirsetufólki.

Brot á prófreglum getur varðað vísun frá prófi eða úr námskeiði eftir atvikum, svo og viðurlög, skv. gildandi lögum og reglum Keilis.