Háskólabrú Keilis á framúrskarandi kennara árið 2018

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra og Gísli Hólmar. Þess má geta að Gísli kenndi Lilju stærðfræ…
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra og Gísli Hólmar. Þess má geta að Gísli kenndi Lilju stærðfræði í MR.

Miðvikudaginn 6. júní heiðraði Menntavísindasvið Háskóla Íslands fimm kennara fyrir framúrskarandi störf. Valnefnd fór yfir hátt í eitt þúsund tilnefningar og umsagnir og var Gísli Hólmar Jóhannesson stærðfræðikennari á Háskólabrú Keilis einn þeirra kennara sem hlutu viðurkenningu í ár. Hér að neðan má lesa umsögn eins nemanda hans sem fylgdi tilnefningunni: 

„Gísla tókst á einstæðan máta að miðla stærðfræði á mannamáli og bjó yfir takmarkalausri þolinmæði við kennslu. Alla barnæskuna hafði mér verið talið trú um að ég gæti ekki lært stærðfræði. Eftir hans leiðsögn skil ég ekki bara stærðfræði heldur er með sterkari sjálfsmynd. Hann var alltaf boðinn og búinn að vera með aukatíma, hafði brennandi áhuga á efninu og hætti ekki fyrr en allir skildu viðfangsefnið. Mannbætandi snillingur sem var alltaf á vaktinni!“

Viðburðurinn er hluti af átaksverkefninu „Hafðu áhrif“ þar sem almenningi gefst kostur á að senda inn tilnefningu um kennara sem hefur haft mest áhrif á viðkomandi. Markmiðið er að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu, hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar hafa á einstaklinga og samfélag.

Viðurkenningarnar eru veittar annað hvert ár og voru fyrstu kennararnir heiðraðir árið 2014, en þá hlaut Hrafnhildur Jóhannesdóttir stærðfræðikennari Háskólabrúar Keilis einnig þessa viðurkenningu. Gísli Hólmar og Hrafnhildur Jóhannesbörn eru reyndar ekki skyld, en þau eiga það hinsvegar sameiginlegt að vera innblástur fyrir nemendur sem hafa oftar en ekki haft litla trú á getu sína til að læra stærðfræði. 

Starfsfólk Keilis og samkennarar Gísla óska honum innilega til hamingju.


Tengt efni