Brautskráning af Háskólabrú og metár í umsóknum

Háskólabrú Keilis brautskráði 87 nemendur úr þremur deildum við hátíðlega athöfn á Ásbrú föstudaginn 8. júní síðastliðinn. Eftir útskriftina hafa yfir 150 nemendur Háskólabrúar lokið námi það sem af er ársins, en í ágúst bætist auk þess við útskritarhópur úr Verk- og raunvísindadeild skólans. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og þakkaði sérstaklega Gísla Hólmari Jóhannssyni fyrir framlag hans til kennslu á Háskólabrú, en Gísli hlaut á dögunum viðurkenningu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands sem framúrskrarandi kennari ársins 2018.
 
Dúx Háskólabrúar var Sigríður María Sigurðardóttir með 9,29 í meðaleinkunn. Fékk hún bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá fékk Halldór Sævar Grímsson menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þátttöku í félagsstörfum. Jón Bjarni Ísaksson flutti ræðu útskriftarnema. 
 
Með útskriftinni hafa samtals 1.685 nemendur lokið Háskólabrú Keilis og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Metfjöldi umsókna er í Háskólabrú Keilis fyrir haustönn 2018 og fjölgar þeim annað árið í röð. Nú geta nemendur valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu, auk þess sem boðið er upp á alþjóðlega Háskólabrú á ensku. 
 
Umsóknum fjölgar annað árið í röð   
 
Annað árið í röð fjölgar umsóknum í Háskólabrú Keilis, en í byrjun júní höfðu borist umtalsvert fleiri umsóknir í námið en á sama tíma í fyrra sem var metár í umsóknum. Keilir hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Þá mun Keilir bjóða upp á Háskólabrú á ensku frá og með haustinu. Námið er hugsað fyrir einstaklinga með annað móðurmál en íslensku sem hyggja á nám í Háskóla Íslands en hafa ekki lokið stúdentsprófi.
 
Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans. Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Kannanir í Háskóla Íslands á gengi nýnema hafa sýnt að nemendur sem koma úr Háskólabrú Keilis eru meðal þeirra efstu yfir þá sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám.
 
Myndir frá útskrift Keilis 8. júní 2018 (ljósmyndari: Oddgeir Karlsson) 

Tengt efni