Fara í efni

Hátt í þriðja hundrað umsóknir í Háskólabrú

Frá brautskráningu nemenda á Háskólabrú Keilis 8. júní síðastliðinn
Frá brautskráningu nemenda á Háskólabrú Keilis 8. júní síðastliðinn
Í byrjun júlí höfðu borist á þriðja hundrað umsóknir í stað- og fjarnám Háskólabrúar Keilis fyrir haustið 2018 og er það sambærilegur fjöldi og á síðasta ári, en þá barst metfjöldi umsókna í námið. Ekkert lát virðist því vera á áhuga á aðfaranám fyrir háskóla um þessar mundir.
 
Námsráðgjafar Keilis og forstöðumaður Háskólabrúar vinna þessa dagana úr umsóknum og eru allir umsækjendur sem uppfylla skilyrði boðaðir í persónuleg inntökuviðtöl. Vegna fjölda umsókna biður skólinn umsækjendur um að sýna biðlund en haft verður samband við þá sem allra fyrst.
 
Á þeim tíu árum sem boðið hefur verið upp á aðfaranám til háskóla í Keili, hafa á bilinu 150 til 200 nemendur útskrifast árlega úr stað- og fjarnámi Háskólabrúar. Samtals hafa þannig yfir 1.600 einstaklingar lokið náminu og hefur mikill meirihluti þeirra - eða um 85% - haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis við góðan orðstír. 
 
Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans. Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Kannanir í Háskóla Íslands á gengi nýnema hafa sýnt að nemendur sem koma úr Háskólabrú Keilis eru meðal þeirra efstu yfir þá sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám.  
 
Á haustönn 2018 er boðið upp á Háskólabrú í stað- og fjarnámi, bæði með og án vinnu. Nánari upplýsingar á www.haskolabru.is