Fara í efni

Ný tækifæri til náms

Frá stofnun Keilis árið 2007 hefur Háskólabrú verið ein megin stoðin í námsframboði skólans. Ekki einungis með því að vera fjölmennasta námið sem Keilir býður upp á, heldur einnig og ekki síður vegna þeirra áhrifa sem námið hefur haft á líf þeirra sem það hefur stundað.

Auðvitað hefur flest allt nám áhrif á þá einstaklinga sem það stunda. En Háskólabrú Keilis er einstakt nám að því leyti að þar fer saman samstillt átak bæði kennara og nemenda í að leiða nemendur sem hafa misst trú á bæði skólakerfið og sjálft sig aftur í nám. Í mörgum tilfellum er um að ræða nemendur sem hafa flosnað upp úr framhaldsskólanámi eða fundu sig ekki í hefðbundna skólakerfinu á sínum tíma. Nemendur sem eru að sækja nám aftur eftir langa fjarveru og koma með drifkraft, metnað og löngun til að takast á við nýjar áskoranir. Einstaklingar sem vilja breyta til og móta sína eigin framtíð.

Brottfall nemenda í íslenskum skólum er mikið og hefur lengi verið svartur blettur á skólakerfinu. Það er mikil nauðsyn að draga úr brottfalli í skólum landsins og ekki síður að koma þeim aftur í nám sem náðu ekki að klára skólagöngu, en hafa bæði getu og áhuga á að sækja aftur nám. Mikilvægur þáttur í gæðastarfi Keilis eru eftirfylgnikannanir brautskráðra nemenda. Rúmlega 700 manns hafa útskrifast úr Háskólabrú Keilis síðan skólinn hóf starfsemi og hefur um 85% þeirra haldið áfram í námi.  Metnaður nemenda okkar til áframhaldandi náms er skýr og þannig leitast starfsfólk skólans við að mæta metnaði og kröfum nemenda. Þetta er besta mælistikan sem við höfum um árangur okkar og ekki síður dugnað þeirra nemenda sem hafa sótt nám við skólann.

Skólar verða aldrei betri en þeir nemendur sem þeir útskrifa og vitnisburður um gæði náms verður bara mælt í árangri þeirra einstaklinga sem það sækja. Við erum stolt af öllum þeim sem hafa sótt nám í Háskólabrú Keilis. Það þarf kjark og áræðni til að setjast á skólabekk eftir langa fjarveru, og það þarf dugnað og trú á sjálfan sig til að klára skólagöngu. Fyrst og fremst þarf vilja til að breyta til og takast á við nýjar áskoranir. Þegar þetta er til staðar er fólki allir vegir færir. Við erum þakklát fyrir að fá að vera með í að greiða götu þeirra og breyta lífi fólks.

Háskólabrú hefur undanfarin ár markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Við veitum nemendum okkar persónulega þjónustu og reynum að efla sjálfstraust þeirra og sjálfstæði. Bæði er hægt að stunda fjarnám og staðnám í Háskólabrú Keilis.

Tekið er á móti umsóknum í fjarnám í Háskólabrú sem hefst í janúar 2013. Umsóknarfrestur er til 10. desember næstkomandi.

Hvað segja fyrrum nemendur Háskólabrúar?

?Ég varð mamma mjög ung og gat ekki sótt menntaskóla eins og jafnaldrar mínir. Ég tók nokkur fög í kvöldskóla en þurfti oft að láta skólann víkja þar sem ég var í krefjandi vinnu og með börn á framfæri. Þegar kreppan skall á missti ég vinnuna og ákvað að líta á það sem nýtt upphaf. Núna er ég á öðru ári í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Það er alltaf erfitt að hefja nám eftir langt hlé, en undirbúningurinn sem ég fékk í Keili auðveldaði mér mjög að takast á við háskólanámið. Í raun var námið stöðug brú inn í háskólann og ég var tilbúin að takast á við verkefnin sem þar tóku á móti mér.?

Snjólaug, nemandi á öðru ári í þjóðfræði við Háskóla Íslands

?Í dag er ég í námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Er reyndar kominn með þriðja barnið í hópinn og konan mín er á fyrsta ári í tölvunarfræði eftir að hafa lokið fjarnámi í háskólabrúnni hjá Keili. Við fengum því bæði tækifæri til að leiðrétta kæruleysið sem upp kom í okkar námsferli á framhaldsskólaárunum og koma því í réttan farveg. Ég var vel undirbúinn fyrir námið mitt og er sérstaklega ánægður með þá áfanga sem voru ætlaðir viðskiptafræðilínunni hjá Keili.?

Leó Rúnar, nemandi á þriðja ári í viðskiptafræði við Háskóla Íslands

?Þegar allt hrundi hér 2008 varð ég atvinnulaus og sá tækifæri til þess að fara í nám. Það hafði ég þráð í mörg ár og hélt að myndi aldrei verða að veruleika. Námið sem ég stundaði hjá Keili hefur nýst mér afar vel og hef ég góðan grunn fyrir námið sem ég er í. Ég valdi það nám vegna þess að mig langar til þess að geta hjálpað væntanlegum nemendum mínum að öðlast það sjálfstraust sem ég öðlaðist í mínu námi. Að hafa trú á því að maður geti lært er svo mikils virði og hvetur mann til þess að takast á við verkefni og ögra sjálfum sér?.

Una Kristín, nemandi á öðru ári í kennarafræði við Háskólann á Akureyri