Fara í efni

Leiðandi aðili í nýjum kennsluháttum

Háskólabrú Keilis er krefjandi undirbúningur fyrir háskólanám og er eina aðfaranámið á Íslandi sem er unnið í samstarfi við Háskóla Íslands. Að loknu námi hafa nemendur öðlast ígildi stúdentsprófs sem gildir í háskóla hérlendis og erlendis.

Það þarf kjark og áræðni til að setjast á skólabekk eftir langa fjarveru, og það þarf dugnað og trú á sjálfan sig til að klára skólagöngu. Fyrst og fremst þarf vilja til að breyta til og takast á við nýjar áskoranir. Þegar þetta er til staðar er fólki allir vegir færir. Við erum þakklát fyrir að fá að vera með í að greiða götu þeirra og breyta lífi fólks. Í dag höfum við útskrifað rúmlega þúsund nemendur af Háskólabrú og flestir þeirra hafa hafið nám í háskólum hérlendis og erlendis.

Kennsluhættir sem mæta þörfum fullorðinna

Háskólabrú hefur undanfarin ár markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Við veitum nemendum okkar persónulega þjónustu og reynum að efla sjálfstraust þeirra og sjálfstæði.

Kennsluhættir á Háskólabrú miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Við veitum nemendum okkar persónulega þjónustu og reynum að efla sjálfstraust þeirra og sjálfstæði. Við leggjum mikið uppúr því að nemendur okkar kynnist samnemendum sínum og helstu þáttum í skólastarfinu. Því er fyrsta vika í staðnámi og fyrsta vinnuhelgi í fjarnámi tileinkuð hópefli, hópavinnu og kynningu á þeirri vinnu sem framundan er. Staðnám Háskólabrúar hefst í ágúst fjarnám hefst í janúar ár hvert. 

Vendinám á Háskólabrú

Á Háskólabrú er lögð megin áhersla á svokallað vendinám eða speglaða kennslu. Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu og geta nemendur horft á þær eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Nemendur vinna aftur á móti heimavinnuna í skólanum, oft í verkefnum, undir leiðsögn kennara. Kennslustundir í skólanum verða fyrir vikið frábrugðnar hefðbundinni kennslu. 

Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt. Nám er alltaf á ábyrgð nemenda og undirbúningur fyrir verkefnatímana í skólanum er nauðsynlegur til þess að vinnan í skólanum nýtist á virkan hátt.

Hvað segja fyrrum nemendur Háskólabrúar?

?Ég varð mamma mjög ung og gat ekki sótt menntaskóla eins og jafnaldrar mínir. Ég tók nokkur fög í kvöldskóla en þurfti oft að láta skólann víkja þar sem ég var í krefjandi vinnu og með börn á framfæri. Þegar kreppan skall á missti ég vinnuna og ákvað að líta á það sem nýtt upphaf. Núna er ég á öðru ári í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Það er alltaf erfitt að hefja nám eftir langt hlé, en undirbúningurinn sem ég fékk í Keili auðveldaði mér mjög að takast á við háskólanámið. Í raun var námið stöðug brú inn í háskólann og ég var tilbúin að takast á við verkefnin sem þar tóku á móti mér.? 

Snjólaug, nemandi á þriðja ári í þjóðfræði við Háskóla Íslands

?Ég hef lokið námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og konan mín er á öðru ári í tölvunarfræði eftir að hafa lokið fjarnámi í háskólabrúnni hjá Keili. Við fengum því bæði tækifæri til að leiðrétta kæruleysið sem upp kom í okkar námsferli á framhaldsskólaárunum og koma því í réttan farveg. Ég var vel undirbúinn fyrir námið mitt og er sérstaklega ánægður með þá áfanga sem voru ætlaðir viðskiptafræðilínunni hjá Keili.? 

Leó Rúnar, Meistaranemi í reikningsskilum og endurskoðun við Háskóla Íslands

?Þegar allt hrundi hér 2008 varð ég atvinnulaus og sá tækifæri til þess að fara í nám. Það hafði ég þráð í mörg ár og hélt að myndi aldrei verða að veruleika. Námið sem ég stundaði hjá Keili hefur nýst mér afar vel og hef ég góðan grunn fyrir námið sem ég er í. Ég valdi það nám vegna þess að mig langar til þess að geta hjálpað væntanlegum nemendum mínum að öðlast það sjálfstraust sem ég öðlaðist í mínu námi. Að hafa trú á því að maður geti lært er svo mikils virði og hvetur mann til þess að takast á við verkefni og ögra sjálfum sér?.

Una Kristín, nemandi á þriðja ári í kennarafræði við Háskólann á Akureyri

Tekið er á móti umsóknum í staðnám í Háskólabrú sem hefst í ágúst 2014. Umsóknarfrestur er til 10. júní næstkomandi.