Fara í efni

"Besta ákvörðun sem ég hef tekið"

Myndir af hluta útskriftarhóps í janúar 2021
Myndir af hluta útskriftarhóps í janúar 2021

Keilir brautskráði 66 nemendur við útskrift skólans föstudaginn 15. janúar. Vegna aðstæðna og reglna um fjöldatakmarkanir var útskriftin með öðru sniði en vanalega og fór athöfnin fram í beinu streymi. Útskriftarnemum gafst þó tækifæri til að senda inn umsagnir um námstímann sinn hjá Keili sem voru lesnar upp af forstöðumönnum í stað formlegrar ræðu fyrir hönd útskriftarnema.

Við athöfnina voru brautskráðir 58 nemendur af Háskólabrú og átta nemendur úr fótaaðgerðafræði. Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp. Athöfnin var heldur óhefðbundin að þessu sinni, vegna aðstæðna og reglna um fjöldatakmarkanir fór útskriftin fram í beinu streymi.

Með útskriftinni hafa nú 3.984 nemendur lokið námi við deildir skólans sem var stofnaður á Ásbrú í Reykjanesbæ í maí 2007. Í lok ársins 2020 voru yfir eitt þúsund nemendur skráðir í nám og námskeið á vegum Keilis og hafa aldrei fleiri aðilar lagt stund á nám við skólann en nú. Munar þar mestu að nú leggja tveir árgangar stund á nám til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð við Menntaskólann á Ásbrú, auk þess sem mikil aukning hefur verið á ásókn í opna framhaldsskólaáfanga við skólann. Þá býður Keilir nú í annað sinn upp á fjölmennt undirbúningsnámskeið til inntökuprófs í læknisfræði en þau hafa verið haldin undanfarin ár við góðan orðstír framhaldsskólanema af öllu landinu. Þá hafa aldrei fleiri einstaklingar lagt stund á nám í Háskólabrú Keilis en á núverandi námsári.

Hæsta meðaleinkunn í sögu Háskólabrúar

Háskólabrú Keilis brautskráði samtals 58 nemendur úr öllum deildum. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar flutti ávarp og stýrði brautskráningunni. Dúx Háskólabrúar var Kristinn Frans Stefánsson, sem útskrifaðist með 9,82 í meðaleinkunn – þá hæstu í sögu Háskólabrúar. Hann fékk gjafir frá Arion banka og Keili sem og viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá voru lesnar upp umsagnir útskriftarnema. 

Með útskriftinni hafa samtals 2.099 nemendur útskrifast úr Háskólabrú Keilis frá fyrstu útskrift skólans árið 2008 og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Aldrei jafn margir nemendur stundað frumgreinanám í Keili og á þessu námsári, en á annað hundrað umsóknir bárust í fjarnám Háskólabrúar sem hófst í byrjun janúar. Þeir bætast við fjölmennasta hóp nýnema í Háskólabrú sem hófu nám síðastliðið haust og stunda þar með núna yfir þrjú hundruð nemendur frumgreinanám í Keili.

Upptaka af útskrift Keilis 15.01.2021