Fara í efni

Dýrmætasta veganestið trú á eigin getu

Í útskrift Keilis í júnímánuði hlaut Kristjana Vilborg Þorvaldsdóttir Menntaverðlaun Háskóla Íslands. Verðlaunin hlaut hún fyrir framúrskarandi námsárangur á Háskólabrú og fyrir að sýna eftirtektarverða þrautseigju í námi.

Kristjana Vilborg, 41 árs tveggja barna móðir úr Garðinum, segir röð tilviljana hafa ýtt sér af stað í nám á Háskólabrú. „Ég var um það bil að missa vinnuna og var nýlega búin að fara í greiningu þar sem ég fékk ADD greiningu. Í framhaldi hafði ég farið í töluverða sjálfsskoðun þar sem ég hugsaði mikið um skólagöngu mína sem barn og unglingur. Ég held að það sem rak mig endanlega af stað var forvitni. Mig langaði til að kanna hvernig væri að setjast á skólabekk með þessa vitneskju, meiri þroska og rétt verkfæri. Einnig hafði ég heyrt góða hluti um Keili varðandi nemendur með svipaða sögu og mína. Mig langaði eiginlega bara að komast að því hvort ég gæti þetta.“

Kristjana missti vinnu sína sumarið 2020 eins og svo margir sökum faraldursins. „Það er alltaf sárt að missa vinnu, líka í aðstæðum eins og faraldri, þegar ástæðan er ekki persónuleg og aðstæður sem enginn ræður við. Það á ílla við mig að hafa lítið fyrir stafni svo ég tók ákvörðun um að kynna mér nám hjá Keili. Það voru blendnar tilfinningar og var ég óörugg um hvort ég gæti þetta en ég er mjög þakklát fyrir hvatningu frá manninum mínum og vinkonum sem höfðu töluvert meiri trú á mér en ég sjálf.“

Aðspurð um lykilinn að árangri sínum sagðist Kristjana ávalt reyna að leggja allt í það sem hún tekur sér fyrir hendur. „Ég er einnig vandvirk og vinnusöm en þurfti að tileinka mér þolinmæði. Ég held að lykilatriðið sé skipulag, þrátt fyrir að eiga ekki alltaf auðvelt með það. Einnig lagði ég upp með að byrja alltaf strax á fyrsta degi að fara vel yfir kennsluáætlanir, setja mér markmið og kortleggja hverja viku. Svo var mesta áskorunin að hafa agann til að fylgja planinu“.

Almenna skólakerfið hentaði ekki

Kristjana fann sig ekki í námi á yngri árum en námið hjá Keili hentaði vel. „Almenna skólakerfið átti ekkert vel við mig og ég áttaði mig í raun ekki almennilega á því af hverju fyrr en í seinni tíð. Fjarnámið hjá Keili hentaði mér hinsvegar mjög vel og var algjör bylting að kynnast vendináminu í fyrsta sinn. Að geta hlustað á fyrirlestra í ró og næði og mætt svo undirbúin í verkefni eða verið tilbúin með spurningar til kennara í stað þess að eyða dýrmætum tíma í að reyna að halda einbeitningu í stórri kennslustofu og ná jafnvel bara helmingi þess efnis sem farið var yfir.“

Kristjana byrjaði í framhaldsskóla beint eftir grunnskóla en hætti fljótlega. „Ég var einhvern veginn með hálfan hug við námið og ákvað að taka pásu frá námi í eina önn. Áður en ég vissi af var þessi önn orðin af sjö árum. Þá tek ég skrifstofubraut og seinna meir nám til viðurkennds bókara. Það var svo í janúar 2021 sem ég dreif mig í nám á Háskólabrú“.

Dýrmætasta veganestið trú á eigin getu

Aðspurð um hvað stendur upp úr frá tímanum hjá Keili segir Kristjana það vera aukin trú og vinskapur. „Dýrmætasta veganestið sem ég tek með mér er sennilega örlítið meiri trú á eigin getu. Á ég það námsráðgjafa Keilis að þakka sem og frábærum kennurum. Fljótlega eignaðist ég einnig vinkonu í Keili og vorum við samferða í gegnum námið alla daga frá fyrstu kynnum, það var ómetanlegt, sá vinskapur er kominn til að vera. Ég er einnig þakklát starfsfólki Keilis því frá fyrsta degi fékk ég hlýlegt og persónulegt viðmót. Skólinn er ótrúlega vel mannaður af úrvalsliði kennara sem voru alltaf til staðar og studdu vel við bakið á manni. Það var mjög dýrmætt og þeirra hvatning hjálpaði manni að fá meiri trú á hvað maður gat“.