Fara í efni

184 nemendur útskrifaðir af Háskólabrú

Birna Karen Bjarkadóttir útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn
Birna Karen Bjarkadóttir útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn

Háskólabrú útskrifaði 31 nemanda af verk- og raunvísindadeild við hátíðlega athöfn í aðalbyggingu Keilis föstudaginn 13. ágúst síðastliðinn. Því hafa alls 184 nemendur lokið námi á Háskólabrú árið 2021.

Nanna Kristjana Traustadóttir, staðgengill framkvæmdastjóra hélt hátíðarræðu og stýrði athöfn. Hjördís Rós Egilsdóttir og Alexander Grybos léku ljúfa tóna fyrir útskriftargesti.

Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og afhenti viðurkenningarskjöl ásamt Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur, verkefnastjóra Háskólabrúar. Dúx Háskólabrúar var Birna Karen Bjarkadóttir, en hún útskrifaðist með 9,41 í meðaleinkunn og fékk peningagjöf frá HS Orku í viðurkenningarskyni. Linda Ólafsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnemenda.

Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Frá stofnun Háskólabrúar hafa 2.217 lokið náminu og öðlast nýtt tækifæri til náms við allar deildir Háskóla Íslands ásamt fjölda háskóla hérlendis sem erlendis. Nemendur geta valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu.