Fara í efni

Fjölmennasti fjarnámshópur Háskólabrúar Keilis

Yfir tvö þúsund einstaklingar hafa lokið Háskólabrú Keilis frá fyrstu brautskráningunni árið 2008.
Yfir tvö þúsund einstaklingar hafa lokið Háskólabrú Keilis frá fyrstu brautskráningunni árið 2008.

Skólasetning nýnema í Háskólabrú Keilis fór fram fimmtudaginn 7. janúar síðastliðinn.

Ásókn í fjarnám Háskólabrúar heldur áfram að aukast og hefja í janúar um eitt hundrað nýnemar nám við skólann sem eru umtalsvert fleiri en á sama tíma í fyrra. Bætast þeir við núverandi nemendahóp Háskólabrúar sem hóf nám síðastliðið haust sem var metár í umsóknum. Aldrei hafa því jafn margir einstaklingar lagt stund á frumgreinanám innan Keilis en í ársbyrjun 2021.

Keilir hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Tekið er við nýnemum í fjarnám tvisvar árlega (í janúar og ágúst) bæði með og án vinnu og einu sinni á ári í staðnám Háskólabrúar (í ágúst).

Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans. Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir taka mið af þörfum fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir.
 
Samkvæmt nýlegri eftirfylgnikönnun Keilis til útskrifaðra nemenda hefur mikill meirihluti nemenda Háskólabrúar hafið háskólanám og telja sig hafa fengið góðan undirbúning fyrir nám á háskólastigi að aðfaranámi loknu.