Fara í efni

Nýtt fyrirkomulag og lægri skólagjöld í Háskólabrú Keilis

Frá útskrift Háskólabrúar í júní 2016
Frá útskrift Háskólabrúar í júní 2016
Keilir hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007. Miklar framfarir hafa orðið á þessum tíma í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda, og hefur Keilir brugðist við með því að innleiða nýjungar í kennsluháttum og fjölbreyttari fyrirkomulag námsins. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Allt miðast þetta við að nemandinn geti tekið námið á sínum forsendum.
 
Hingað til hefur fyrirkomulag námsins miðast við að Háskólabrú í staðnámi hefjist á haustin en í fjarnámi á vorin. Haustið 2017 geta nemendur hinsvegar í fyrsta skipti valið að hefja nám í Háskólabrú í staðnámi bæði á Ásbrú og Akureyri, eða í fjarnámi með og án vinnu. Við þessar breytingar á fyrirkomulagi námsins hefur einnig skapast svigrúm til hagræðinga og hefur Keilir því ákveðið að lækka skólagjöld í Háskólabrú um 40% frá og með skólaárinu 2017 - 2018. 
 
Breytingin mun þannig gilda fyrir alla þá sem stunda nám í Háskólabrú frá og með haustönn 2017, bæði núverandi nemendur og nýnema. Eftir breytinguna mun fullt nám á tveimur önnum í félagsvísinda- og lagadeild kosta um 270.000 kr.
 
Um 1.500 einstaklingar hafa lokið Háskólabrú á tíu árum
 
Á þeim tíu árum sem boðið hefur verið upp á aðfaranám til háskóla í Keili, hafa á bilinu 150 til 200 nemendur útskrifast árlega úr stað- og fjarnámi Háskólabrúar. Samtals hafa þannig hart nær 1.500 einstaklingar lokið náminu og hefur mikill meirihluti þeirra (um 85%) haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis við góðan orðstír. 
 
Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans. Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Kannanir í Háskóla Íslands á gengi nýnema hafa sýnt að nemendur sem koma úr Háskólabrú Keilis eru meðal þeirra efstu yfir þá sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám.
 
Nánari upplýsingar um námið má nálgast á www.haskolabru.is