Örvar Bessason, 47 ára gamall fjölskyldufaðir, náði stórum áfanga á dögunum þegar hann útskrifaðist af Háskólabrú. Hann er einn af þeim sem hafði því miður ekki góða upplifun af skólakerfinu og bjóst aldrei við því að fara aftur í nám.
„Ég er nú einn af þeim sem hef átt vægast sagt slæma upplifun af námi frá því að ég var 6 ára gamall og reiknaði alls ekki með því að ég færi aftur í nám. Skólaganga mín litaðist mjög af því að ég er með ADHD sem enginn vissi hvað var á þeim tíma. Ég þótti einfaldlega óþekkur og vitlaus krakki sem gat ekki farið eftir neinu. Þessi skilaboð höfðu þannig áhrif á sjálfsmyndina hjá mér að ég trúði því sjálfur að ég væri bara óþekkur og vitlaus. En um 40 árum síðar fékk ég greiningu og það mætti segja að 20 mínútum eftir að ég tók lyf við ADHD hafi allt líf mitt breyst.“
Örvar hefur komið víða við í gegnum tíðina en má þó segja að allt hans líf hafi snúist um mat á einn eða annan hátt þar sem hann hefur aðallega starfað við matreiðslu bæði til sjós og lands. „Ég lærði sjókokkinn fyrir um 30 árum síðan og árum saman var ég kokkur á frystitogurum en þó alltaf með stoppum inn á milli þar sem ég fór að vinna á veitingastöðum í landi. Ég veit eiginlega ekkert skemmtilegra en að elda fallegan og góðan mat. Ég var að vinna hjá kjötframleiðanda þegar COVID skellur á og er einn af þeim sem þurfti að hugsa hlutina upp á nýtt vegna þess hvernig atvinnumarkaðurinn og þá sérstaklega veitingageirinn varð ílla úti við það að ferðamenn hættu að koma til landsins.“
Örvar byrjaði í Háskólabrú Keilis síðastliðið haust og þar á undan tók hann grunnnám hjá Mími Símenntun til þess að komast að í Háskólabrú. Leiðin að hans markmiði hefur því tekið sinn tíma en með þrautseigju, dugnaði og þolinmæði nálgast hann óðum markmið sitt. „Markmið mitt var og er að komast í Háskóla Íslands og læra guðfræði og nú þegar við eigum þetta samtal er búið að samþykkja umsókn mína þar.“
En hvað kom til að Örvar ákvað að drífa sig aftur í nám „Mig langaði einfaldlega að reyna að vera til gagns. Ég er einn af þeim sem þurfti að breyta um lífsstíl og lífsviðhorf, drakk of mikið og leið einfaldlega ekki vel. Eftir að ég hætti drykkju og náði að fóta mig aftur í lífinu langaði mig einfaldlega að hjálpa fólki til að eignast betra líf og til þess þarf ég að verða mér úti um réttu tækin til þess og mín leið er í gegnum guðfræði“.
Mikill sveimhugi og staðnám hentaði því betur
Örvar hefur stundað staðnám á Háskólabrú þar sem hann taldi það betra fyrir sig. „Ég kaus að fara í staðnám hjá Keili vegna þess að ég er ekki viss um að ég hafi þann aga sem til þarf til að stunda fjarnám. Ég er rosalega mikill sveimhugi og væri eflaust endalaust farinn að gera eitthvað annað en að læra. Það er líka gott að komast að heiman í annað umhverfi til þess eins að geta komið aftur heim til að slaka á og gera aðra hluti þar en að vinna við lærdóminn.“
Þar sem að Örvar er búsettur í Hafnarfirði hefur hann þurft að keyra Reykjanesbrautina daglega í kennslustundir á Ásbrú. Hann setti það þó ekki fyrir sig og í raun sagði það afslappandi og fljótlegt. „Það er í raun fljótlegra að keyra þar á milli en að fara niður í bæ eða upp á Höfða á þessum álagstíma á morgnanna. Það tekur einungis um 25 mínútur fyrir mig að keyra upp á Ásbrú. Það er líka bara mjög afslappandi að keyra á Suðurnesin og hlusta á morgunútvarpið eða góða tónlist“.
Í hljómsveit sem „enginn hefur nokkurn tíman heyrt um“
Þess á milli sem Örvar sinnir fjölskyldunni og situr á skólabekk stundar hann stangveiði, fluguhnýtingar og spilar og syngur í hljómsveit. „Ég spila á bassa og syng í hljómsveit sem enginn hefur nokkurn tíma heyrt um og líklega er það eina markmið þeirrar hljómsveitar. En við erum nokkuð stór hópur manna og kvenna sem öll hafa einhverjar tengingar í tónlist sem hittumst einu sinni í viku til þess að spila saman og spjalla, það mætti sega að þetta væri eins og stór hávær saumaklúbbur sem nærist á rokki og róli.“
„Við erum öll allskonar og með þeim orðum þakka ég kærlega fyrir mig“
Aðspurður um hvað stendur helst upp úr frá vegferð hans í Háskólabrú stóð ekki á svörum: „Það er allt fólkið sem ég hef fengið að vera samferða, bæði nemendur og starfsfólk skólans. Nemendurnir eru á öllum aldri og koma með flest þau sjónarmið sem gamall karl eins og ég hef gott að því að hlusta á og taka til mín þegar það á við. Starfsfólk og kennarar skólans hafa einnig verið til fyrirmyndar og get ég ekki hrósað þeim nægilega. Þeirra viðmót og öll framkoma gagnvart nemendum, sem margir hverjir eru líkt og ég með slæma reynslu af skólakerfinu, hefur verið algjörlega frábær og má segja að lykilorðið þar sé virðing. Nemendur og kennarar vinna saman að því að kalla fram allt það besta í okkur nemendunum sem í mörgum tilfellum hafa ekki náð fótfestu annars staðar í námi. Kennararnir eru einnig vel menntaðir og víðsýnir sem hefur hentað mér einstaklega vel. Við erum öll allskonar og með þeim orðum þakka ég kærlega fyrir mig.“