Fara í efni

„Ég taldi mér trú um að ég gæti ekki menntað mig“

Selma Klara Gunnarsdóttir við brautskráningu Háskólabrúar Keilis 17. ágúst 2018
Selma Klara Gunnarsdóttir við brautskráningu Háskólabrúar Keilis 17. ágúst 2018

Selma Klara Gunnarsdóttir flutti ræðu útskriftarnema við brautskráningu Verk- og raunvísindadeildar Háskólabrúar Keilis þann 17. ágúst síðastliðinn.

Sökum veikinda átti Selma erfiða skólagöngu í grunnskóla og taldi sig í kjölfarið trú um að hún gæti ekki menntað sig. Hún skráði sig hinsvegar í Menntastoðir 2016 og lauk nú tveimur árum seinna Háskólabrú Keilis. Hún mun hefja nám í líftækni við Háskólann á Akureyri í haust.

Selma Klara gaf okkur góðfúslegt leyfi til að birta útskriftarræðu hennar. Við þökkum henni kærlega fyrir og óskum henni góðs gengis í áframhaldandi námi.


Kæru samnemendur, starfsfólk og aðrir gestir 

Mig langar til að segja ykkur frá því að í mörg ár var ég búin að ganga með þann draum að læra en sá draumur varð alltaf fjarlægari og fjarlægari með hverju árinu sem leið. Minni grunnskóla göngu lauk eiginlega eftir sjöunda bekk vegna veikinda sem að ég glímdi við, ég var ekkert í áttunda bekk, lítið í níunda bekk og ekkert í tíunda bekk. 

Ég taldi mér trú um í mörg ár að ég gæti ekki menntað mig því að ég hefði engann grunn og líka vegna þess að ég er mjög lesblind. 

Haustið 2016 skráði ég mig í menntastoðir eftir að hafa átt gott samtal við námsráðgjafa sem kvatti mig áfram og taldi mér trú um að ég gæti þetta vel, dagana á undan var ég virkilega kvíðin og var alltaf að spá í að hætta við. 

Fyrsta daginn gekk ég inn með ekkert sjálfstraust en strax eftir fyrstu vikuna leið mér mun betur og fann að öryggið jókst. Ég lauk Menntastoðum sumarið 2017 og skráði mig strax í fjarnám hjá Keili. 

Enn og aftur fór ég að efast um sjálfa mig, það var búið að vara mig við að þetta væri mjög krefjandi nám og farið hratt yfir. Er raunhæft að vera einstæð móðir með þrjú börn og þar af eitt barn langveikt og eins lesblind og ég er muni komast í gegnum þetta nám? Og þurfa fara frá Akureyri í lotur á nokkra vikna fresti? Mér fannst þetta viss bilun og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að gera þetta né komast í gegnum þennan vetur.

Ég viðurkenni þó að þessi vetur var ekki auðveldur en hann var svo sannarlega skemmtilegur og krefjandi. Ég var oft hrikalega þreytt og hringdi ófá símtölin í Þóru og Skúla [námsráðgjafa Keilis] sem hlustuðu á mig og gáfu mér góð ráð og töldu mér trú um að ég gæti þetta. 

Með skipulagi, vilja, trú og örlítilli þrjósku, stuðningi frá börnum mínum, foreldrum, vinum, samnemendum, kennurum og námsráðgjöfum þá tókst þetta og ekki bara það heldur er ég að fara að hefja nám í Háskólanum á Akureyri sem var enn fjarlægari draumur. 

En ég lærði ekki bara að læra í þessu námi heldur gaf það mér helling meira, ég fékk trú á sjálfa mig, lærði að stíga út fyrir þægindaramman, eignaðist frábæra vini og ég kynntist sjálfri mér betur. Ég segi það hiklaust eftir þennan vetur að það geta allir lært, sumir þurfa að hafa meira fyrir því heldur en aðrir, eða nota mismunandi aðferðir til þess. Með öllu því frábæra starfsfólki sem starfar hér fann ég hvaða aðferð hentar mér best og hvaða hjálpargögn ég þarf að nota. 

Í dag stend ég hér full af þakklæti eftir þennan vetur, ég er þakklát fyrir að hafa frá degi eitt fengið ómældan stuðning sérstaklega þá frá Þóru námsráðgjafa og kynnst öllu því frábæra fólki sem var með mér í náminu og kennurunum fyrir alla þá aðstoð og skilning sem ég fékk. Mig langar sérstaklega að þakka Gísla [stærðfræðikennari á Háskólabrú] en án hans stæði ég líklega ekki hér þar sem ég var handviss eins og líklega mjög margir að ég gæti bara ekki lært stærðfræði. Allir aukatímarnir, hvatningin, kennslan og umhyggjan sem maður fann fyrir er ómetanleg. Takk Gísli! 

Ég get sem sagt lært stærðfræði eftir allt saman! Hver hefði giskað á það? Hvað þá að ég væri að fara að hefja nám eftir örfáar vikur í líftækni? Ekki ég það er pottþétt. 

Mig langar líka til að þakka Þóri fyrir að hafa hvatt mig áfram og ekki leyft mér að gefast upp í lokin þegar mér fannst ekkert ganga. 

Ég óska samnemundum mínum til hamingju með áfangann og góðs gengis í því sem þau taka sér næst fyrir hendur. 

Takk fyrir mig!