Fara í efni

Dúxinn sem hélt hún væri vitlaus

Kristjana Þórarinsdóttir
Kristjana Þórarinsdóttir

Í ársriti Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins ?GÁTT 2015? er grein um Kristjönu Þórarinsdóttur sem dúxaði í og Keili og lauk háskólanámi í júní síðastliðnum. Greinin er birt með góðfúslegu leyfi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Dúxinn sem hélt hún væri vitlaus

Kristjana Þórarinsdóttir hafði talið sjálfri sér trú um að hún gæti ekki lært, að bóklegt nám væri ekki fyrir hana og hún var sannfærð um að ef hún færi í skóla yrði hlegið að því hvað hún væri vitlaus. Hún glímdi lengi við lítið sjálfstraust í námi og þurfti að sanna fyrir sjálfri sér og öðrum að hún gæti þetta víst og það með eindæmum vel. Hún hóf gönguna hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) í Grunnmenntaskólanum. Fór þaðan í staðnám Menntastoða og loks í Háskólabrú Keilis til þess að öðlast ígildi stúdentsprófs. Kristjana lauk nýverið við lokaverkefni sitt í sálfræði við Háskóla Íslands og útskrifaðist með BS gráðu í byrjun júní 2015. Lokaverkefnið hennar var rannsókn á viðfangsefni sem hefur lítið verið skoðað hér á landi og Kristjana hefur samfélaginu.

Þeir sem hefja nám á fullorðinsárum þurfa oftar en ekki að brjóta múra hugarfarsins og byggja upp trú á eigin getu í námi. Saga Kristjönu er gott dæmi um það hvaða áhrif nám á fullorðinsárum hefur á einstaklinginn og hvernig það að stíga skrefið getur opnað dyr að ótal möguleikum sem áður þóttu aðeins fjarlægur draumur. Við byrjum á að forvitnast um það hvernig það kom til að Kristjana fór í nám og hvers vegna hún lét verða af því haustið 2009. ?Á þessum tíma var orðið lítið að gera í vinnunni og ég ákvað að loka þeim rekstri sem ég var með. Ég var á atvinnuleysisbótum í stuttan tíma áður en haft var samband við mig og mér boðið að fara í Grunnmenntaskólann hjá MSS. Þetta var eiginlega meira svona til þess að fara eitthvað út og hafa eitthvað að gera. Og þarna var maður kominn í áttunda bekkjar stærðfræði og stafsetningapróf og sjálfstyrkingu. Ég fann að ég væri ekki alveg jafn ómöguleg til náms eins og ég hélt,? segir Kristjana.

Fékk martraðir um skólagönguna

?Ég man eftir því þegar ég var yngri, af því ég hætti í framhaldsskóla, þá fékk ég martraðir um að ég myndi mæta í skólann og allir myndu hlæja að mér af því ég væri svo vitlaus, ég gæti bara ekki lært á bók. Ég væri meira svona týpa sem þyrfti bara að fara í verklegt nám, iðnnám eða svoleiðis,? rifjar Kristjana upp. Þegar hún fór af stað fann hún svolítið að þetta var ekki rétt hjá henni og að hún gæti alveg lært. ?Þetta var allt fullorðið fólk í náminu og allt fólk sem hafði flosnað upp úr námi af einhverjum ástæðum. Það myndaðist svona hópmórall að fara áfram í Menntastoðir. Við hvöttum hvort annað áfram og ég fór eiginlega svolítið út af þrýstingi og þetta var svona: Já, við gerum þetta bara! -viðhorf.? Skrefið var þó risavaxið í huga Kristjönu á þessum tíma. Þetta var hálft ár, undirbúningur fyrir meira nám og hún vissi að þetta yrði erfitt og tæki á. ?Ég var náttúrulega bara skíthrædd, það var ekkert öðruvísi. Ég kom svo þann 3. janúar til þess að byrja í Menntastoðum, búin að fara í bókabúðina og vissi ekkert hvað ég átti að kaupa, kunni ekki að glósa og ýmislegt í þessum dúr. Þetta var allt voðalega spes en svo bara gekk þetta þvílíkt vel.? 

Var lögð í einelti í grunnskóla

Kristjana hætti í námi í framhaldsskóla á sínum tíma í uppreisn gegn námi og sannfærð um að geta ekki lært. Hún telur nokkra samverkandi þætti hafa átt þátt í því að hún hélt ekki áfram í námi og er í raun efins um að það hefði nokkurn tíma getað orðið svo að hún færi hina hefðbundnu leið úr grunnskóla og beint í framhaldsskóla. ?Ég var ekki tilbúin að fara í nám, var ekkert að fara að læra, bara að fara í framhaldsskóla af því að maður átti að gera það. Ég var ekki með rétta hugarfarið, var rosalega lítil í mér og fannst ég verri en allir aðrir, með lítið sjálfsálit og það bitnaði mjög mikið á mér,? segir Kristjana og bætir við að í grunnskóla hafi hún verið lögð í mikið einelti og telur að það hafi hvílt þungt á sér ennþá þarna. Fjölskylduaðstæðurnar hafi líka haft áhrif. ?Ég ólst upp á Djúpavogi og fór í skóla á Egilsstöðum og það var erfitt, maður fór að heiman til þess að fara í skóla. Þarna var ég ein í herbergi með stelpu frá Seyðisfirði og þetta var bara of mikið miðað við það á hvaða stað ég var. Ég hefði þurft að vera í vernduðu umhverfi til þess að þetta gengi upp en ég er ekki viss um það hefði gert það, þó það hefði verið.? 

?Þurfti ekkert að takast á við það hvað ég væri vitlaus?

Kristjana var kölluð á fund skólameistara af því að hún var í raun búin að skrópa sig úr náminu. ?Hann bauð mér að fara heim og læra og taka prófin, þótt ég væri í raun ekki með próftökurétt. Ég var með svo góðar einkunnir úr grunnskóla og honum fannst það mjög mikil synd að ég kastaði þessu tækifæri á glæ. Ég tók í höndina á honum, sagðist mæta en fór svo að vinna og hafði engan tíma í þetta. Mér fannst það held ég bara fínt að vera laus frá þessu því þá þurfti ég ekki að takast á við hvað ég væri vitlaus.? Kristjana lýsir sjálfri annars sem mjög duglegri og sjálfstæðri. Hún vann mikið á þessum árum og var búin að festa kaup á eigin íbúð aðeins 17 ára. Hún hafði annað viðhorf gagnvart sjálfri sér sem námsmanni. ?Það var eitthvað sem ég taldi mér trú um að væri ekki fyrir mig. Ég las til dæmis aldrei mér aldrei til ánægju. Ég sagði við sjálfa mig að ég gæti ekki lesið, sem er bara kjánalegt, svona eftir á að hyggja.?

Aðspurð segir Kristjana að námið í Menntastoðum hafi tvímælalaust haft áhrif á viðhorf til náms og eigin getu. ?Það víkkaði sjóndeildarhringinn og smátt og smátt var farið að grafa undan þeim viðhorfum að ég gæti ekki lært, ég gæti ekki lesið og að ég myndi aldrei geta farið í bóklegt nám. Í gegnum námið var grafið undan þessum viðhorfum, ég fór í próf og það gekk vel og maður kynntist sjálfum sér á nýjan hátt. Námið hefur í raun áhrif á svo margt sem snertir daglegt líf. Þegar maður er að vaxa hefur það áhrif á allt í lífinu.? 

Dúxaði í Menntastoðum og Keili

Kristjana lagði mikinn metnað í námið og setti frá upphafi markið hátt. ?Ég man að ég sagði við Hjörleif, sem var verkefnastjóri Menntastoða; ég ætla að klára þær með 9 í meðaleinkunn. Hann sagði við mig að það væri bara gott að klára Menntastoðir, ég skyldi bara byrja á því. Það væri átakið því þangað kæmi fólk aftur í nám eftir langa fjarveru og ekki skuli einblínt á einkunnir. Hann laumaði svo að mér við útskriftina að ég hefði verið hæst og þar sem ekki eru veitt verðlaun fyrir hæstu einkunn í Menntastoðum þyrfti ég að dúxa í Keili til þess að fá verðlaun. Ég hugsaði allan tímann í Keili að ég ætlaði að verða hæst. Ég lærði og lærði og lagði svo mikið á mig og þetta var svo skemmtilegt. Og ég varð hæst!? 

?Ég má fara í háskóla?

Þegar leið undir lok námsins á Menntastoðum fékk nemendahópurinn áhrifaríka kynningu frá Keili sem breytti hugmyndum og markmiðum Kristjönu verulega. ?Ég hlustaði á þessa stelpu sem kom og var að tala um sitt nám og ég hugsaði: Vá, hvað hún er klár! Mig langar að geta þetta. Ég má fara í háskóla og ég ætla þangað!? Fyrir henni var háskóli risavaxið fyrirbæri en mæti áskorunum í námi og þá sé gott að skoða styrkleika sína og kosti. ?Ég var komin með risavaxið sjálfstraust og búin að sigrast á svo mörgu að mér fannst ég geta sigrað heiminn. Í háskólanum fékk ég 6 í fyrsta prófinu og fyrsti veturinn fór svolítið í að taka á því sem þurfti. Ég þurfti einhvern veginn að leggja allt í þetta og sjá hversu langt ég kæmist og vera bara nógu dugleg.? 

Enginn mætti við útskriftina

Saga Kristjönu er að mörgu leyti lík sögu þeirra sem hefja nám á fullorðinsárum. Þeir fara í gegnum persónulega viðhorfsbreytingu en um leið mæta þeir einnig hindrunum og ákveðnum viðhorfum samfélagsins. ?Ég var spurð að því hvað ég væri að gera? Og ég svaraði að ég væri að læra að deila og læra hvort ætti að skrifa stóran eða lítinn staf og segja við sjálfa mig í leiðinni að ég væri ekki hallærisleg. Þá var ég spurð, til hvers?? Þegar Kristjana útskrifaðist úr Keili var hún búin að segja við fjölskyldu sína og vinkonur að hún ætlaði að vera hæst. ?Það mætti enginn á útskriftina mína vegna þess að fólk hélt ég væri bara eitthvað grey. Ég bauð fjölskyldunni og vinum í útskriftarveisluna því mér fannst þetta mjög merkilegur áfangi. Þar kom fólk til mín og sagði: Vá, ég vissi ekki að þú værir svona klár, til hamingju! Þetta virðist hafa komið fólki á óvart.? 

Námið fjarlægð ?martröð?

Viðhorf fólks til námsins segir Kristjana að hafi verið dálítið eins og hún væri að þessu af því að hún var atvinnulaus og bara að gera þetta til að hafa eitthvað að gera. ?Þetta var svo miklu meira og ég varð bara ákveðnari í að sýna fram á það. Í dag er ég sú sem hvet aðra áfram í náminu við háskólann. Það er nefnilega svolítið fyndið að maður þarf að réttlæta það fyrir sjálfum sér og öðrum að vera orðin 36 ára og að stíga inn í grunnnám í framhaldsskóla.? Námið byrjaði í raun sem fjarlæg ?martröð? hjá Kristjönu, en núna hefur hún lokið námi í sálfræði til BS-gráðu frá Háskóla Íslands og bíður eftir svari við umsókn um áframhaldandi nám. Lokaverkefni hennar byggir á rannsókn á áráttu og þráhyggjuhugsun kvenna eftir barnsburð en um helmingur kvenna upplifir uppáþrengjandi ómeðvitaðar hugsanir um að skaða barnið. Þessi mál eru þó lítið rædd og því vill Kristjana breyta til hins betra.

Varðandi ráð til annarra sem standa í svipuðum sporum og hún gerði, segir Kristjana: ?Ég man þegar ég byrjaði í háskólanum. Ég sat fyrir utan skólann og hugsaði að það hlyti einhver að mæta mér í dyrunum og segja mér að fara heim. Þú ert alltof heimsk til að vera hérna! Hvað ertu að spá? Svo hugsaði ég svo sterkt; af hverju ekki ég eins og allir aðrir?? 

GÁTT 2015
Olga Björt Þórðardóttir og Særún Rósa Ástþórsdóttir