Fara í efni

Aleksandra Rós Jankovic hlaut Menntaverðlaun HÍ

Alexandra Rós við brautskráningu Háskólabrúar 12. júní 2020
Alexandra Rós við brautskráningu Háskólabrúar 12. júní 2020
AleksandraRós Jankovic, sem brautskráðist af Háskólabrú Keilis í júní, er meðal handhafa Menntaverðlauna Háskóla Íslands 2020. Alls tóku nítján nemendur við slíkum viðurkenningum við útskriftir úr framhaldsskólum víða um land í maí og júní. 
 
Menntaverðlaunum Háskóla Íslands var komið á laggirnar fyrir tveimur árum en þau eru veitt þeim nemendum sem hafa verið framúrskarandi í námi sínu til stúdentsprófs auk þess að hafa náð eftirtektarverðum árangri á sviði lista eða íþrótta, átt mikilvægt framlag til skólafélaga eða skólans eða sýnt þrautseigju við erfiðar aðstæður.
 
Hver framhaldsskóli gat tilnefnt einn nemanda til verðlaunanna og bárust nítján tilnefningar að þessu sinni. Verðlaunin voru gjafabréf fyrir bókakaupum, viðurkenningarskjal frá rektor Háskóla Íslands og styrkur sem nemur upphæð skráningargjalds fyrsta skólaárið í Háskóla Íslands, kjósi verðlaunahafinn að hefja nám þar. Nemendur sem hlutu  Menntaverðlaun Háskóla Íslands við útskrift úr framhaldsskóla gátu einnig sótt um styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands en styrkjum verður úthlutað úr honum í sumar.