Hæsta einkunn frá upphafi í atvinnuflugnámi Keilis

Flugakademía Keilis útskrifaði 28 atvinnuflugnema og hafa þá samtals 246 atvinnuflugmenn útskrifast frá upphafi. Aukin aðsókn hefur verið í flugnám hjá Keili undanfarin ár og stunda að jafnaði á þriðja hundrað nemendur flugnám við skólann á ári hverju.
 
Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis flutti ávarp og afhenti atvinnuflugmönnum prófskírteini ásamt Snorra Pál Snorrasyni skólastjóra Flugakademíunnar. Lúðvík Alexander Bengtsson fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í atvinnuflugmannsnámi með 9,87 í meðaleinkunn. Þetta er hæsta einkunn sem gefin hefur verið frá upphafi skólans. Fékk hann gjafabréf frá WOWair og bók frá Icelandair. 
 
Þá útskrifaði Flugakademían í fjórða sinn flugvirkjanema, en boðið er upp á námið í samvinnu við AST (Air Service Training) í Skotlandi. Rannveig Erla Guðlaugsdóttir, þjálfunarstjóri flugvirkjanáms, aðstoðaði við útskriftina. 23 nemendur útskrifuðust úr náminu að þessu sinni og fékk Ísak Þór Þorsteinsson viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Fékk hann gjafir frá Icelandair Maintenance Operation og ISAVIA. 
 
Með útskriftinni hafa samtals rétt tæplega hundrað nemendur lokið flugvirkjanámi við skólann. Berglind Björk Sveinbjörnsdóttir, nemandi í atvinnuflugnámi, flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis.
 

Tengt efni