Leó Freyr Halldórsson, flight operations manager hjá Flugakademíu Íslands og Hildur Þórisdóttir Kjærnested sem útskrifaðist úr atvinnuflugnámi hjá Flugakademíunni árið 2019 ræddu flugnámið, framann og atvinnuhorfurnar í síðasta þætti Flugvarpsins.
Í lýsingu þáttarins segir "Þrátt fyrir heimsins mestu kreppu í atvinnuflugi eru nú um 300 manns að stunda verklegt flugnám við Flugakademíu Íslands, stærsta flugskóla landsins og fjöldi fólks sem kláraði námið rétt fyrir kreppuna bíður þess að ástandið batni. Í þætti #21 er rætt við tvo fulltrúa úr þessum hópi ungra flugmanna á Íslandi."
Eins og áður segir útskrifaðist Hildur með skírteini atvinnuflugmanns árið 2019 um námið segir Hildur “Ég ákvað að velja samtvinnað atvinnuflugnám hjá Keili, ég var búin að skoða nokkrar leiðir – eða nokkrar leiðir, það eru tvær leiðir í boði modular og svo þetta samtvinnaða og af því ég hafði ekki neina reynslu af flugi áður nema sem flugfreyja þá fannst mér þetta liggja beinast við þar sem skólinn heldur svolítið á þér í gegnum námið. Þú bara greiðir þrjár greiðslur og svo mætirðu bara. [...]þetta er svolítið matað ofan í mann og þetta er vel skipulagt og það hentaði mér bara vel á þessum tíma að fara í gegnum þetta svona.”
Hildur útskrifaðist rétt áður en kófið skall á og hefur því fengið að finna nokkuð fyrir áhrifum þess á flugiðnaðinn, hún er þó vongóð um framtíðar frama sem flugmaður, segist ekki sjá fyrir sér starfsframa í neinu öðru.