Ógleymanlegt færnipróf yfir eldgosið í Geldingadölum

Birta að lenda vélinni eftir að hafa staðist færnipróf
Birta að lenda vélinni eftir að hafa staðist færnipróf

English version

Á dögunum fór Birta Óskarsdóttir, 21 árs atvinnuflugnemi Flugakademíu Íslands, í ógleymanlega flugferð yfir eldgosið í Geldingadal. Þetta var engin venjuleg flugferð því Birta sat sjálf í flugstjórnarsætinu og þreytti hún færnipróf til atvinnuflugmannsskírteinis hjá prófdómara.

Samtvinnað atvinnuflugnám er sniðið að þörfum þeirra sem stefna að frama sem atvinnuflugmenn. Skólinn heldur vel utan um nemandann út námstímann og eru allir áfangar og flug (bókleg og verkleg þjálfun) skipulögð fram í tímann.

Birta hafði lokið bóklegum prófum og verklegri þjálfun til atvinnuflugmannsréttinda og átti einungis færniprófið eftir til að fá skírteinið í hendurnar. Markmið með færniprófi er að staðfesta að umsækjandi sé fær um að stjórna loftfari af fyllsta öryggi, þannig hvorki honum sjálfum, farþegum hans né annarri flugumferð sé hætta búin.

Óhætt er því að segja að Birta hafi fengið krefjandi verkefni í færniprófinu því mikil eftirspurn er eftir því að fljúga yfir eldgosið og einungis átta flugvélar eru leyfðar inn í flugsvæðið á sama tíma. Því þarf að vera vel á varðbergi, halda góðum samskiptum í talstöðinni ásamt þess að fylgjast með öðrum flugvélum í kring og fljúga flugvélinni af mikilli nákvæmni.

Aðspurð sagði Birta glöð í bragði að þetta hafi verið mögnuð og spennandi upplifun að fljúga yfir stórbrotið eldgosið og sjá það með eigin augum úr lofti. Ekki skemmdi það fyrir að Birta stóðst prófið með prýði og getur nú kallað sig atvinnuflugmann.

Við óskum Birtu innilega til hamingju með áfangann og hlökkum til að fylgjast með þessum nýútskrifaða atvinnuflugmanni úr Flugakademíu Íslands í framtíðinni.

Opið er fyrir umsóknir fyrir næsta hóp atvinnuflugnema sem hefur nám 30. ágúst 2021.

Frekari upplýsingar um námið má finna hér.


Tengdar fréttir