Aukinn stuðningur við atvinnuflugnám á Íslandi

English version

Ríkisstjórnin hefur samþykkt stuðning upp á 80 milljónir á ári næstu þrjú árin til Flugakademíu Íslands að uppfylltum tilteknum skilyrðum, með það að markmiði að efla og styrkja atvinnuflugnám í landinu. 

Flugakademía Íslands varð til við sameiningu Flugakademíu Keilis og Flugskóla Íslands á síðasta ári. Er hún eini flugskólinn á Íslandi sem býður upp á nám til atvinnuflugmannsréttinda. Samtals hafa á fimmta hundrað nemendur útskrifast sem atvinnuflugmenn frá stofnun Keilis og er námið það næst fjölmennasta í skólanum á eftir Háskólabrú Keilis. 

Á undanförnum árum hafa sameinuðu skólarnir útskrifað rétt um tólf hundruð atvinnuflugmenn. Flugskóli Íslands hóf starfsemi árið 1998 og hefur á þeim tíma brautskráð rúmlega 2.000 nemendur þar af 883 úr atvinnuflugnámi. Samtals hafa þannig árlega að meðaltali um 60 nemendur útskrifast sem atvinnuflugmenn frá skólunum tala sem hefur farið hækkandi á undanförnum árum samfara auknum áhuga fólks á flugnámi. Þá hefur einnig orðið mikil aukning kvenna í náminu og eru nú um fjórðungur atvinnuflugnema á Íslandi konur sem er talsvert hærra en á heimsvísu.

Miðað við þennan fjölda nemenda er ljóst að flugskólar á Íslandi hafa skipað veigamikinn sess í menntun atvinnuflugmanna fyrir störf ekki einungis á Íslandi heldur einnig erlendis. Öflugt atvinnuflugnám á Íslandi er þannig mikilvægur hlekkur í því að halda uppi framtíðar starfsemi flugfélaga hérlendis sem og erlendis, þegar greinin óhjákvæmilega tekur við sér á ný á næstu árum.

„Árið 2008 sögðum við að það væri góður tími til að hefja flugnám þrátt fyrir efnahagslegt hrun. Það tekur um 2-3 ár að ljúka atvinnuflugmannsprófi og þá er einmitt rétti tíminn til að fara í nám þegar niðursveiflur eru í flugrekstri. Þrátt fyrir heimsfaraldur spáir Boeing flugvélaframleiðandinn þörf fyrir 147.000 nýja flugmenn í Evrópu næstu 20 árin. Atvinnuflugmannsnám á Íslandi er eftirsóknarvert sem birtist í þeirri staðreynd að talsverður fjöldi erlendra nemenda stundar hér nám við sér-íslenskar aðstæður sem eru í senn lærdómsríkar og krefjandi“, segir Kári Kárason forstöðumaður Flugakademíu Íslands.


Tengdar fréttir