Fara í efni

Rætt við flugmenn framtíðarinnar

Flugakademía Íslands hélt á dögunum kynningardag í endurnýjaðri aðstöðu skólans til verklegrar kennslu á Reykjavikurflugvelli. 

Gestkomandi gafst færi á að fræðast um einka- og atvinnuflugnám, skoða sig um og hitta bæði kennara og nemendur. Stöðugt flæði var af gestum og rætt við marga upprennandi flugmenn framtíðarinnar.

Verkleg aðstaða Flugakademíunnar á Reykjavíkurflugvelli fékk nýverið andlitslyftingu þar sem húsgögn voru endurnýjuð og aukið á þægindi og huggulega aðstöðu. Veggir aðstöðunnar skarta ljósmyndum flugmannsins og ljósmyndarans Þráins Kolbeinssonar sem meðal annars á heiðurinn af syrpunni „undur íslenskrar náttúru séð ofan frᓠá instagram síðu Flugakademíunnar.

Þau sem ekki höfðu færi á að sækja Flugakademíuna heim á kynningardeginum geta skráð sig á kynningarfund á Ásbrú þar sem hægt verður að skoða bóklega aðstöðu Flugakademíu Íslands sem og skráð sig í kynningarflug sem er frábær upplifun í háloftunum og ógleymanleg lífreynsla.

Í sumar býður Flugakademía Íslands einnig upp á Flugbúðir fyrir ungt áhugafólk um flug og þau sem hyggja á nám innan fluggeirans. Um er að ræða vinsæl sumarnámskeið en gríðarlegur áhugi hefur verið fyrir námskeiðunum undanfarin ár enda eru þau upplagður vettvangur til að fá innsýn inn í flugheiminn. Í Flugbúðunum er farið yfir allt það áhugaverðasta og skemmtilegasta í flugheiminum þar sem vettvangsferðir skipa stóran sess.