Fara í efni

Vorönn 2023: Opið fyrir umsóknir í einkaflugnám og samtvinnað atvinnuflugnám

Opið er fyrir umsóknir í einkaflugnám og samtvinnað atvinnuflugnám sem hefst í janúar 2023. Umsóknarfrestur er til 29. nóvember næstkomandi.

Samtvinnað atvinnuflugnám

Samtvinnað atvinnuflugnám er tilvalið fyrir þá sem eru með litla eða enga flugreynslu og vilja öðlast atvinnuflugmannsréttindi að námi loknu. Námið hefst 6. janúar og tekur um 24 mánuði að ljúka því, bóklegu og verklegu námi, frá upphafi til enda. Hámarkstími náms samkvæmt reglugerð er 36 mánuðir frá upphafi og ber nemanda að ljúka því innan þess tímaramma. Fyrstu 6 vikurnar eru kenndar í kvöldskóla og eftir það færist kennslan í dagskóla.

Samtvinnað atvinnuflugnám hjá Flugakademíu Íslands er krefjandi og faglegt nám frá fyrsta degi. Það kallar á mikinn sjálfsaga nemenda og vinnu við að ná settu markmiði. Námið er sniðið að þörfum þeirra sem stefna á frama sem atvinnuflugmenn þar sem nemendum er fylgt eftir frá fyrstu flugferð að atvinnuflugmannsskírteini. Að loknu námi öðlast nemendur samevrópskt atvinnuflugmannsskírteini, ásamt öllum þeim réttindum sem til þarf, til að geta starfað sem atvinnuflugmaður hjá evrópskum flugrekanda. Skólinn heldur vel utan um nemandann út námstímann og eru allir áfangar og flug (bókleg og verkleg þjálfun) skipulögð fram í tímann.

Námið er lánshæft að hluta sem fjögurra anna nám hjá Menntasjóði námsmanna og er eina lánshæfa flugnámið hér á landi hjá sjóðnum.

Ekki er þörf á einkaflugmannsskírteini til að geta hafið nám.

Einkaflugnám

Einkaflugnám er ætlað þeim sem vilja verða einkaflugmenn og vilja stunda sjónflug á litlum einshreyfils flugvélum, sér og farþegum sínum til ánægju. Einkaflugnám getur líka verið fyrsta skref í átt að atvinnuflugmannsréttindum ef áfangaskipt atvinnuflugnám hentar betur.

Námið er unnið í samræmi við samevrópskar reglur um flugnám, sem innleiddar eru á Íslandi frá Öryggisstofnun Evrópu (EASA) í gegnum EES-samninginn. Að loknu einkaflugnámi, öðlast nemandi samevrópsk einkaflugmannsréttindi (Part-FCL flugskírteini), sem veitir réttindi til að fljúga á einshreyfils flugvél í sjónflugi með farþega án endurgjalds víða um heim. Einkaflugmannsnám er bæði skemmtilegt og krefjandi nám sem skiptist í bóklegt nám og verklegt nám.

Bóklegt nám hefst 6. janúar og tekur 6 vikur samtals með prófum. Kennt er í kvöldskóla.

Kynningarfundir dagana 8. og 22. nóvember

Flugakademía Íslands mun bjóða upp á kynningarfundi dagana 8. og 22. nóvember kl. 17.00. Þar gefst fólki kostur á að fræðast um flugnám. Kynningarfundirnir fara fram í bóklegri kennsluaðstöðu skólans að Ásbrú (Grænásbraut 910, 262 Reykjanesbæ) þar sem stuttir fyrirlestrar verða haldnir um flugnám, námsleiðir í boði, fjármögnun og atvinnumöguleika að námi loknu. Að loknum fyrirlestri gefst gestum tækifæri að skoða aðstöðu Flugakademíunnar á Ásbrú, kíkja á flugherma og ræða við kennara. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á að kynna sér flugnám að láta sjá sig. Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig á fundina og er það gert hér.

SÆKJA UM Í SAMTVINNAÐ ATVINNUFLUGNÁM

SÆKJA UM Í EINKAFLUGNÁM

SKRÁNING Á KYNNINGARFUND