Fara í efni

Opið fyrir skráningu í Flugbúðir 2021

Flugakademía Íslands býður upp á Flugbúðir fyrir ungmenni á aldrinum 13 til 16 ára dagana 10. til 12. ágúst næstkomandi. Flugbúðirnar eru tilvaldar fyrir þau sem hyggja á flugnám í framtíðinni eða flugáhugafólk almennt til þess að spreyta sig og öðlast betri innsýn í flugheiminn. Skráning á námskeiðið er hafin en skráningarfrestur er til og með 3. ágúst.

 Í Flugbúðunum verður farið yfir allt það áhugaverðasta og skemmtilegasta sem kennt er í flugtengdum fögum þar sem vettvangsferðir skipa stóran sess, enda mikil upplifun að fá að fara inn á flugverndarsvæðið og sjá þá fjölbreyttu flóru af flugtengdum vinnustöðum sem yfirleitt eru lokaðir almenningi.

Allir þátttakendur fá tækifæri til að prófa að fljúga í fullkomnum flughermi Flugakademíunnar og afslátt í kynnisflug í einni af kennsluvélum skólans. Flugbúðir Flugakademíunnar eru stútfullar af spennandi efni þar sem skiptist á kennsla og fyrirlestrar í bland við vettvangsferðir og verklegar æfingar.

Gestafyrirlesarar úr flugtengdum fögum verða á námskeiðinu, svo sem flugmaður sem segir frá daglegu lífi sínu í millilandaflugi, og eru leiðbeinendur námskeiðsins flugmenn, nemar og kennarar við Flugakademíu Íslands.

Námskeiðið er í þrjá daga, frá þriðjudeginum 10. ágúst til og með fimmtudeginum 12. ágúst frá kl. 9:00 – 15:00 og er námskeiðsgjald 38.900 kr. Innifalið í námsskeiðsgjaldi er hádegismatur, námsgögn, vettvangsferðir og kynningartími í flughermi skólans.

Takmarkað pláss er á námskeiðinu og hvetjum við því áhugasama til að skrá sig sem fyrst en umsóknarfrestur er til og með 3. ágúst næstkomandi. Umsjónarmenn flugbúðanna eru þau Óskar Pétur Sævarsson og Kristjana Henný Axelsdóttir. Frekari upplýsingar eru veittar í gegnum netfangið flugbudir@keilir.net.

Skráning

Senda fyrirspurn