Fara í efni

Nýútskrifaður atvinnuflugmaður fór í Flugbúðirnar 11 ára

Aron Björn Heiðberg Steindórsson útskrifaðist á dögunum úr bóklegu atvinnuflugmannsnámi hjá Flugakademíu Íslands. Í útskriftarathöfninni sjálfri uppgötvaðist það fyrir tilviljun að Aron Björn væri fyrsti útskrifaði atvinnuflugmaðurinn hjá Flugakademíunni sem byrjaði upphaflega í Flugbúðum Flugakademíunnar sem barn. Fyrstu Flugbúðir Flugakademíunnar voru haldnar árið 2013 og var Aron meðal fyrstu barna til að sækja Flugbúðirnar, þá aðeins 11 eða 12 ára gamall, en hann fékk undanþágu til að taka þátt í Flugbúðunum.

„Mamma tók þátt í leik á Facebooksíðu Flugakademíunnar þegar Flugbúðirnar voru að byrja. Ég átti afmæli sama dag og dregið var út í leiknum og mig minnir að ég hafi ekki verið dreginn út en að skólinn hafi sent skilaboð á mömmu og boðið mér að koma. Ég held að þetta hafi verið einhver undantekning að ég hafi fengið að fara því ég var bara 11 ára að verða 12 ára á þessum tíma“.

Í dag er hann 20 ára gamall útskrifaður atvinnuflugmaður og hefur óhóflega mikinn áhuga á flugi að eigin sögn, enda flugið hans helsta áhugamál. Aron hefur alltaf haft mikinn áhuga á flugi og lengi stefnt á að verða flugmaður. „Frá því að ég man eftir mér hef ég alltaf ætlað að verða flugmaður. Þegar ég var í 2.bekk í grunnskóla mætti ég stoltur á öskudaginn í flugmannsbúning. Þegar ég var yngri ætlaði ég að verða flugmaður, flugumferðarstjóri og flugvirki svo að það er öruggt að segja að það hafi alltaf verið draumurinn“.

Flugáhuginn er mikill í fjölskyldunni og aðspurður um hvaðan áhuginn hafi kviknað nefnir hann sögur af afa sínum. „Ég held að sögurnar sem að mamma mín og amma sögðu mér af afa mínum Andra Heiðberg í ýmiskonar þyrluævintýrum hafi komið þessu svolítið af stað hjá mér. Síðan þegar bróðir minn byrjaði að læra þetta á sínum tíma fór allt í gang hjá mér og ég beið bara eftir því að verða nógu gamall til að byrja“.

Aron byrjaði því strax í einkaflugnámi 16 ára gamall og stefnir hann áfram ótrauður í átt að markmiði sínu við að starfa sem atvinnuflugmaður. Nú tekur við verkleg tímasöfnun hjá Aroni og er draumurinn að vinna hjá Icelandair í framtíðinni. „Icelandair hefur alltaf verið draumurinn, ég er alveg viss um að ég verði þar í framtíðinni. Síðan er þyrluflug eitthvað sem vekur mikinn áhuga hjá mér og dreymir mig um að læra á þyrlu einhvern daginn líka“.

Að sögn Arons voru Flugbúðirnar á sínum tíma mjög eftirminnilegar og mælir hann eindregið með þeim fyrir unglinga sem hafa áhuga á flugheiminum. „Ég man svo sterkt eftir því þegar við fengum að skoða herþotur í skýlinu. Eftir það, og Top Gun að sjálfsögðu, hafa herþotur alltaf vakið sérstakan áhuga hjá mér. Flugbúðirnar voru algjör snilld til þess að fá að kynnast öllu sem fer fram á Keflavíkurflugvelli og í flugi yfir höfuð. Ég mæli 100% með þessu fyrir alla sem hafa einhvern áhuga á þessum heimi“.

Flugbúðir Flugakademíu Íslands verða næst haldnar 9. – 11. ágúst og eru þær ætlaðar fyrir ungt fólk á aldrinum 13 til 16 ára. Í Flugbúðunum verður farið yfir allt það áhugaverðasta og skemmtilegasta sem kennt er í flugtengdum fögum þar sem vettvangsferðir skipa stóran sess, enda mikil upplifun að fá að fara inn á flugverndarsvæðið og sjá þá fjölbreyttu flóru af flugtengdum vinnustöðum sem yfirleitt eru lokaðir almenningi.

Nánari upplýsingar um Flugbúðir Flugakademíu Íslands

Skráning í Flugbúðir