Fara í efni

Mikill áhugi fyrir atvinnuflugmannsnámi

Miðvikudaginn 14. september síðastliðinn fór fram sameiginleg kynning Flugakademíunnar og Icelandair á atvinnuflugmannsnámi á Íslandi. Mikill áhugi virðist vera fyrir atvinnuflugmannsnámi sem sýndi sig í þeim fjölmenna hópi sem mætti á kynninguna. Kynningin fór fram í húsakynnum Icelandair þar sem Óskar Pétur Sævarsson, forstöðumaður Flugakademíu Íslands, ávarpaði hópinn og kynnti námsframboð, vélakost og aðstöðu Flugakademíunnar.

Næst tók Haukur Reynisson, flugrekstrarstjóri Icelandair, orðið ásamt Lindu Gunnarsdóttir, yfirflugstjóra Icelandair. Haukur fór yfir rekstrarumhverfi félagsins og sagði meðal annars frá þeirri aðlögunarhæfni sem félagið býr að og hefur þurft að sýna í gegnum tíðina. Á síðastliðnu ári hefur átt sér stað mikill vöxtur og er félagið að koma hratt tilbaka eftir covid og er áætlað að fjöldi flugmanna Icelandair verði orðinn svipaður árið 2023 eins og árið 2019. Linda lagði áherslu á að til þess að verða atvinnuflugmaður þurfi einstaklingar að búa að miklum flugáhuga og þrautseigju til þess að komast í gegnum gríðarlega krefjandi nám. Í flugmannastarfinu sjálfu er áhuginn áfram lykilatriði og þessi mikla þrautseigja. Á heimsvísu er einnig spáð gríðarlegri vöntun á atvinnuflugmönnum á komandi árum og er því góður tími til þess að byrja að læra flug núna.

Í lok formlegrar kynningar var boðið upp á skoðunarferð um þjálfunaraðstöðu Icelandair sem vakti mikla lukku meðal viðstaddra, enda aðstaða í heimsklassa.

Næstu kynningarfundir Flugakademíu Íslands

Sökum fjölda þurfti því miður að loka fyrir skráningar á kynningarfundinn og komust ekki allir að sem vildu. Flugakademían mun svara þeirri eftirspurn með auka kynningarfundum í október á Ásbrú.

Kynningarfundirnir verða sem hér segir:

Mánudagurinn 3. október kl. 17.00

Þriðjudagurinn 18. október kl. 17.00

Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig á fundina og er það gert hér.

Við þökkum annars kærlega fyrir komuna og sýndan áhuga á flugnámi og munum taka vel á móti ykkur hér á Ásbrú.