Fara í efni

Flugmenn framtíðarinnar í Flugbúðum

Flugbúðir Flugakademíu Íslands fóru fram dagana 9. - 11. ágúst þar sem farið var yfir allt það áhugaverðasta og skemmtilegasta sem kennt er í flugtengdum fögum. Flugbúðirnar eru ætlaðar ungu fólki á aldrinum 13-16 ára sem hafa áhuga á flugi og flugtengdum málum til þess að spreyta sig og fá betri innsýn í flugheiminn. Í ár voru um 20 þátttakendur og fengu allir tækifæri á að fara í flughermi Flugakademíunnar, fara í vettvangsferðir sem og að sitja fyrirlestra í flugtengdum fögum.

Á fyrsta degi Flugbúðanna fengu þátttendur kynningu á starfi, vélum og námi Flugakademíu Íslands áður en haldið var á athafnasvæði Fisfélagsins Sléttunnar. Þar léku fluggarpar listir sínar sem vakti mikla lukku þátttakenda.

Á degi tvö fengu þátttakendur að spreyta sig í flughermi Flugakademíu Íslands og leysa hin ýmsu verkefni. Því næst kom Ólafur Axel Kárason, flugstjóri hjá Play, Rúnar Ingi Erlingsson flugumferðastjóri, Telma Rut Frímannsóttir og Kristín Edda Egilsdóttir, flugkennarar og fyrrum nemendur Flugakademíunnar, í heimsókn og kynntu þau störf flugmanna og flugumferðastjóra.

Síðasta daginn var vettvangsferð inn á flugverndarsvæði Keflavíkurflugvallar þar sem rætt var við vaktstjóra slökkviliðsins sem sýndi þátttakendum alla starfsstöð ISAVIA á austurhlaði Keflavíkurflugvallar. Þá var ferðinni næst heitið í flugskýli Flugakademíunnar þar sem hópurinn fékk að komast í kynni við kennsluflugvélarnar. Að endingu tók tæknistjóri Icelandair á móti hópnum og leiddi hann þau um aðstöðu og skýli þeirra.

Umsjónarmenn Flugbúðanna í ár voru þau Andrés Páll Baldursson ásamt Kristjönu Henný Axelsdóttur og sagði Andrés að mikil ánægja hafi ríkt meðal hópsins. „Það er mjög gleðilegt að Flugbúðirnar séu aftur komnar á dagskrá hjá okkur með reglubundnum hætti. Það er alltaf mikill áhugi fyrir Flugbúðunum og sýndi það sig vel í þátttökufjöldanum. Allir þátttakendur voru gríðarlega glaðir með búðirnar og er ég viss um að við eigum eftir að sjá mörg af þessum ungmennum í háloftunum í framtíðinni“.

Flugbúðir Flugakademíu Íslands fyrir 13-16 ára ungmenni verða næst haldnar 13.-15. júní 2023. Við viljum vekja athygli á því að hægt er að kaupa gjafabréf í Flugbúðirnar allt árið í kring hér. Gjafabréf í Flugbúðirnar er tilvalin afmælis-, jóla- eða fermingargjöf fyrir flugáhugamenn á aldrinum 12-16 ára.

Kaupa gjafabréf í Flugbúðir