Fara í efni

Óskar Pétur veitir Flugakademíu Íslands forstöðu

Ráðið hefur verið í stöðu skólastjóra og stöðu yfirkennara bóklegrar kennslu hjá Flugakademíu Íslands. Óskar Pétur Sævarsson var ráðinn skólastjóri og Davíð Brár Unnarson yfirkennari bóklegrar kennslu.

Óskar hóf flugnám árið 2009 og lauk því hjá Flugakademíunni síðla árs 2011. Fljótlega eftir útskrift fékk hann starf hjá stóru evrópsku flugfélagi, Ryanair, og starfaði þar í sex ár samfleytt. Þar gegndi hann stöðu flugmanns í fjögur ár og tvö ár stöðu flugstjóra. Snemma árs 2019 hóf hann störf hjá Flugakademíunni sem flugkennari og seinna sama ár tók hann við stöðu öryggisstjóra. Óskar hefur óbilandi áhuga á flugi, er kvæntur og á tvö börn.

Óskar mun bera ábyrgð á að þjálfun á vegum skólans uppfylli allar þær kröfur sem gerðar eru í viðeigandi lögum og reglugerðum. Óskar veitir Flugakademíunni forstöðu og situr jafnframt í framkvæmdastjórn ásamt öðrum forstöðumönnum Keilis.

“Það er afar spennandi að fá að taka þátt í rekstri öflugasta flugskóla landsins með áherslu á atvinnuflug. Það eru spennandi tímar í fluginu og mikil þörf á flugmönnum í framtíðinni. Til þess þurfum við öflugan flugskóla sem er vel í stakk búinn til að takast á við þetta verðuga verkefni.” Segir Óskar Pétur Sævarsson, nýráðinn skólastjóri Flugakademíu Íslands.

Óskar tekur við starfinu af Davíð Brá Unnarssyni sem hefur starfað sem skólastjóri Flugakademíu Íslands síðan 2019. Hann skiptir nú um stól og verður yfirkennari bóklegrar kennslu. Davíð starfar sem flugmaður hjá Icelandair meðfram störfum fyrir Flugakademíu Íslands.

Óskar og Davíð hafa þegar hafið störf.

Flugakademía Íslands er einn af fjórum skólum Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs. Í byrjun árs 2019 sameinuðust Flugakademía Keilis og Flugskóli Íslands, einn elsti starfandi flugskóli landsins og sameinaðir mynda skólarnir nú einn öflugasta flugskóla á Norðurlöndunum. Skólinn er með nýjustu og tæknivæddustu kennsluvélar landsins, fullkomna flugherma og á þriðja hundrað flugnema.