Flugakademía Íslands býður uppá fjölbreytt úrval námskeiða fyrir flugmenn og flugkennara til þess að endurnýja eða bæta við réttindi sín. Á döfinni eru eftirfarandi námskeið:
MCC Áhafnasamstarfsnámskeið – 7. nóvember
APS MCC Áhafnasamstarfsnámskeið – 7. nóvember
Flugkennaranámskeið (FI) – 7. nóvember
Upprifjunarnámskeið flugkennara - 21. nóvember
Advanced UPRT – Hvenær sem er
MCC Áhafnasamstarfsnámskeið – 7. nóvember
Námskeiðið snýst um að læra undirstöðu samstarfsins: Sameiginlega ákvarðanatöku, samskipti, verkaskiptingu, notkun gátlista, gangvirkt eftirlit, og stuðning í gegnum alla þætti flugsins undir venjulegum og óvenjulegum aðstæðum sem og í neyðartilvikum. Þetta eru þættir sem eru yfirleitt ekki hluti af tegundaáritunum fjölstjórnarflugvéla og er námskeið í áhafnasamstarfi því skylda áður en menn fá að sækja slíka þjálfun.
Á námskeiði í MCC skal vera minnst 25 tíma kennsla og æfingar í bóklegum greinum og 20 tíma þjálfun í áhafnasamstarfi. Nota skal til þess flugleiðsöguþjálfa II MCC (FNPT II) eða flughermi. Notast er við Alsim ALX flughermi fyrir verklega þjálfun þessa námskeiðs. Sótt er um MCC áhafnasamstarfsnámskeið hér.
APS MCC Áhafnasamstarfsnámskeið – 7. nóvember
APS MCC er nýtt námsskeið sem hannað til að brúa bilið á milli hins hefðbundna námskeiðs í áhafnasamstarfi (MCC) og þjálfunar til tegundarréttinda á fjölstjórnarflugvélar. Þetta námsskeið sameinar raunverulega MCC og JOC í eitt, og við bætast svokölluð línuflug sem er flug áhafnar frá A til B í því umhverfi sem flugfélög starfa í. Á námsskeiðinu læra nemendur um ýmsa mikilvæga þætti flugmannsstarfsins í alþjóðlegu umhverfi s.s. færni í samskiptum, samvinnu, ákvarðanatöku og leiðtogahæfni. Nemendur læra að leysa hin ýmsu vandamál með því að nýta sér reynslu og þekkingu samstarfsfólksins sem teymis, þekkja lagaumhverfið, starfsaðferðir og að beita sinni þekkingu í þessu flókna vinnuumhverfi. Fá nemendur með þessu námsskeiði annars vegar mjög góðan undirbúning fyrir inntökupróf í flughermi hjá flugrekanda, og hins vegar góða innsýn og þjálfun til að takast á við sína fyrstu tegundaráritun á fjölstjórnarflugvél hjá hvaða flugrekanda sem er.
Á námskeiði í APS MCC skal vera minnst 35 klst þjálfun í flughermi fyrir nemendur í samtvinnuðu atvinnuflugmannsnámi, eða 40 klst fyrir nemendur í áfangaskiptu atvinnuflugmannsnámi. Fyrir verklega þjálfun eru notaðir Alsim ALX, Boeing 757-200, Boeing 767-300 eða Boeing 737 MAX flughermar. Sótt er um APS MCC áhafnasamstarfsnámskeið hér.
Flugkennaranámskeið (FI) – 7. nóvember
Flugkennaraskírteinið (FI) undirbýr þig fyrir flugkennarahlutverkið. Á þessu 12 vikna námskeiði lærir þú hvernig á að undirbúa leiðbeiningar og veita verklega flugþjálfunartíma. Farið verður yfir helstu atriði kennslufræðinnar, sálfræði, mannlegrar getu og afköst samtvinnað við kennsluaðferðir, framkvæmd kennslu flugæfinga, meðhöndlun mistaka flugnema, gerð kennsluáætlana og notkun kennslutóla, auk skjalavistunar og gerð prófa og annara skjala. Einnig er farið í fyrirlestrasmíði og framsögu sem er kennt og þjálfað með styttri og lengri fyrirlestrum í kennslustofu ásamt tækni í vendinámi. Flugkennaranámið er góð leið til að öðlast frekari reynslu eftir að þú hefur lokið við atvinnuflugmannsnámið, og það veitir þér tækifæri til að bæta flugmannshæfileika þína sem eru eftirsóttir af flugrekendum, s.s. samvinnu tveggja flugmanna, greina hættur og grípa inn í þegar þess gerist þörf og leiðbeina öðrum flugmanni í réttan farveg. Sótt er um flugkennaranám hér.
Upprifjunarnámskeið flugkennara - 14. nóvember
Upprifjunarnámskeið flugkennara er 2 daga námskeið sem flugkennarar þurfa að sitja til þess að endurvekja eða halda í gildi flugkennararéttindum sínum. Á þessu námskeiði verður farið yfir kennslufræði, nýjar reglugerðir, reglur í okkar nærumhverfi og margt fleira. Námskeiðið er ætlað þeim flugkennurum sem eru þegar handhafar FI/IRI/CRI (A) flugkennaraáritunar og þurfa að uppfylla ákvæði Part FCL reglugerðar um viðhald eða endurnýjun áritunar. Að loknu námskeiði verður gefin út skjal af hálfu Flugakademíunnar til staðfestingar á setu námskeiðs og nota ber við endurnýjun flugkennaravottunar hjá Samgönguyfirvöldum. Sótt er um upprifjunarnámskeið flugkennara hér.
Advanced UPRT – Hvenær sem er
Advanced UPRT er nýtt námskeið sem undirbýr flugmenn með markvissri þjáfun til að læra að koma flugvél úr mismunandi upset ástandi á öruggan hátt. Námskeiðið skiptist í bóklegt nám (5klst) sem kennt er sem CBT og endar á prófi. Í kjölfarið fer nemandi í verklega þjálfun með sérþjálfuðum flugkennara. Verklega þjálfunin samanstendur af að lágmarki 3klst flugi á DA20 flugvél skólans þar sem farið er yfir grundvallaratriði í því hvernig koma skal koma flugvél út úr óæskilegum flugham. Að námskeiði loknu hlítur nemandi útskriftarpappíra en til þess að geta tekið fyrstu týpuréttindi þá er krafa frá EASA að viðkomandi aðili hafi lokið advanced UPRT þjálfun skv reglugerð FCL.745.A. Námskeiðið er hægt að hefja hvenær sem er. Sótt er um Advanced UPRT námskeið hér.