Fara í efni

Björt framtíð í fluginu

Flugbúðir Flugakademíu Íslands fóru fram dagana 10. – 12. ágúst og lauk í gær. Þar var farið yfir allt það áhugaverðasta og skemmtilegasta sem kennt er í flugtengdum fögum. Allir þátttakendur höfðu færi á að spreyta sig í flughermi Flugakademíunnar, heyrðu á fyrirlestra í flugtengdum fögum og fóru vettvangsferðir.

Á þriðjudaginn kom flugfreyjan Anna Margrét í heimsókn og kynnti starf þeirra, því næst kynntu Þórarinn Ólafsson og Hilmar Einarsson flugflota Flugakademíunnar og nám skólans. Dagurinn endaði á heimsókn frá flugumferðarstjóra sem útskýrði starfið fyrir krökkunum og svaraði spurningum.

Á miðvikudag fengu þau svo að spreyta sig í flughermi Flugakademíu Íslands og leysa hin ýmsu verkefni. Seinni part dagsins var svo haldið á Sléttuna þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir og fluggarpar léku listir sínar.

Í gær var heimsókn á Keflavíkurflugvöll þar sem rætt var við vaktstjóra slökkviliðsins sem sýndi krökkunum alla starfsstöð ISAVIA á austurhlaði Keflavíkurflugvallar. Þá var ferðinni næst heitið í flugskýli Flugakademíunnar þar sem krakkarnir fengu að komast í kynni við kennsluflugvélarnar. Að endingu tók tæknistjóri Icelandair á móti hópnum og leiddi hann um aðstöðu og skýli þeirra.

„Það var með eindæmum ljúft að vera með þeim, þau voru alveg hreint til fyrirmyndar allt námskeiðið og framtíðin björt hjá þeim í fluginu“ segir Óskar Pétur Sævarsson einn af umsjónarmönnum Flugbúðanna.