Fara í efni

32 atvinnuflugmenn útskrifuðust á föstudaginn

Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 177 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ föstudaginn 10. júní úr Háskólabrú, Heilsuakademíu og Flugakademíu Íslands. Athöfnin að sinni var tvískipt sökum fjölda og hafa nú 4517 einstaklingar útskrifast úr námi við skóla miðstöðvarinnar.

Flugakademía Íslands útskrifaði 32 atvinnuflugmenn. Óskar Pétur Sævarsson, nýráðinn skólastjóri Flugakademíu Íslands flutti ávarp og veitti viðurkenningar ásamt Davíð Brá Unnarssyni, fráfarandi skólastjóra og núverandi yfirkennara bóklegrar kennslu Flugakademíunnar. Anthony Stefán Martinsson hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur í atvinnuflugnámi með 9,48 í meðaleinkunn og hlaut hann gjöf frá Icelandair ásamt Play í verðlaun. Ishmael Ibn Ibrahim hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Flugakademíu Íslands.

Fríða Dís Guðmundsdóttir og Soffía Björg Óðinsdóttir hófu athafnir með frábæru tónlistaratriði þar sem þær spiluðu á gítar og sungu fyrir viðstadda. Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp og leiddi báðar athafnir. Þá hélt Haddý Anna Hafsteinsdóttir verkefnastjóri Heilsuakademíu hvatningarræðu til útskriftarnemenda fyrir hönd starfsfólks Keilis.

Flugakademía Íslands er eini skóli landsins sem býður upp atvinnuflugnám og er skólinn einn öflugasti flugskóli á Norðurlöndunum. Lögð er áhersla á nútímalega kennsluhætti og eru kennsluvélar skólans þær nýjustu og tæknivæddustu á landinu.

Einka- og atvinnuflugnám næst af stað haust 2022

Einkaflugnám, samtvinnað og áfangaskipt atvinnuflugnám hefst næst haustið 2022 og er opið fyrir umsóknir. Umsóknarfrestur er til 29. júlí.