Fara í efni

1.200 einstaklingar hafa lokið atvinnuflugnámi á Íslandi

Á Íslandi eru einstök skilyrði til menntunar og verklegrar þjálfunar atvinnuflugmanna
Á Íslandi eru einstök skilyrði til menntunar og verklegrar þjálfunar atvinnuflugmanna
Sameinaðir skólar Flugakademíu Keilis og Flugskóla Íslands hafa á undanförnum árum útskrifað rétt um tólf hundruð atvinnuflugmenn. 
 
Flugskóli Íslands hóf starfsemi árið 1998 og hefur á þeim tíma brautskráð rúmlega 2.000 nemendur þar af 883 úr atvinnuflugnámi. Frá því að Flugakademía Keilis var stofnuð fyrir rúmum tíu árum síðan hafa samtals 307 nemendur lokið atvinnuflugnámi við skólann.
 
Samtals hafa þannig árlega að meðaltali um 60 nemendur útskrifast sem atvinnuflugmenn frá skólunum, tala sem hefur farið hækkandi á undanförnum árum samfara auknum áhuga fólks á atvinnuflugstörfum.
 
Þá hefur einnig orðið mikil aukning kvenna í náminu og eru nú um fjórðungur atvinnuflugnema á Íslandi konur, sem er talsvert hærra en á heimsvísu. Samkvæmt eftirfylgnikönnunum Keilis undanfarin ár hafa níu af hverjum tíu nemenda Flugakademíunnar hafið störf innan árs að loknu náminu. 
 
Miðað við þennan fjölda nemenda er ljóst að flugskólar á Íslandi hafa skipað veigamikinn sess í menntun atvinnuflugmanna fyrir störf ekki einungis á Íslandi heldur einnig erlendis. Áætlað er að flugfélög þurfi að ráða til sín allt að 255.000 flugmenn á heimsvísu á næstu átta árum og samtals um 800.000 flugmenn á næstu 20 árum, og verða rétt um 20% þeirra starfa í Evrópu. Öflugt atvinnuflugnám á Íslandi er þannig mikilvægur hlekkur í því að halda uppi starfsemi flugfélaga hérlendis sem og erlendis.
 
Á yfirstandandi skólaári stunda rúmlega þrjú hundruð einstaklingar atvinnuflugnám í Flugakademíu Keilis - Flugskóla Íslands. Þrátt fyrir samdrátt íslenskra flugfélaga á þessu ári, eru blikur á lofti og ný flugfélög í burðarliðnum líkt og fréttir undanfarið hafa gefið til kynna. En hvort sem nemendur hafa hug á framtíðarstörfum hérlendis eða erlendis, er atvinnuflug bæði spennandi og krefjandi námsleið sem býður upp á fjölmarga starfsmöguleika að námi loknu.
 
Næstu bekkir í Flugakademíu Keilis - Flugskóla Íslands hefjast í byrjun janúar 2020. Boðið er upp á bæði áfangaskipt og samtvinnað atvinnuflugnám, auk þess sem hægt verður að leggja stund á námið annað hvort í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ, eða í aðstöðu skólans að Flatahrauni 12 í Hafnarfirði. Verkleg þjálfun flugmanna fer fram í kennsluvélum skólans á flugvöllunum í Reykjavík og í Keflavík.
 
Nánari upplýsingar um námið má nálgast á www.flugakademia.is