Fara í efni

Einstakt APS MCC námskeið í september

Næsta APS MCC (Airline Pilot Standard Multi-Crew Cooperation) námskeið verður haldið 13. september næstkomandi. Námskeiðið er það eina sinnar tegundar á Íslandi.

APS MCC er hannað til að brúa bilið á milli hins hefðbundna námskeiðs í áhafnasamstarfi (MCC) og þjálfunar til tegundarréttinda flugmanna. Á námskeiðinu læra nemendur um ýmsa mikilvæga þætti flugmannsstarfsins í alþjóðlegu umhverfi s.s. færni í samskiptum, samvinnu, ákvarðanatöku og leiðtogahæfni. Nemendur læra að leysa hin ýmsu vandamál með því að nýta sér reynslu og þekkingu samstarfsfólksins, þekkja lagaumhverfið, starfsaðferðir og að beita sinni þekkingu í þessu flókna vinnuumhverfi.

Nemendur betur undirbúnir fyrir umhverfi fjölstjórnarflugvéla

Hugmyndin um APS MCC varð til þegar ljóst varð að of margir nýútskrifaðir flugmenn með atvinnuflugmannsskírteini sem lokið höfðu hinu hefðbundna námskeiði í áhafnasamstarfi, voru ekki að komast í gegnum ráðningarferli evrópskra flugfélaga. Með því að bæta við kennslu í flughermi með þessu nýja námskeiði, býr það nemandann mun betur undir það að vinna í því umhverfi sem fjölstjórnarflugvél krefst umfram það sem hið hefðbundna áhafnasamstarf gerir. Það námskeið kennir flugnemum auðvitað undirstöðuatriðin, en APS MCC bætir talsvert ofan á það og býr flugnema mun betur undir þetta ferli.

Fram kemur hjá Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) að APS MCC sameinar hið hefðbundna námsskeið í áhafnasamstarfi og námi til þotuflugs (Jet Orientation Course – JOC), en það síðarnefnda er ekki til í regluverki stofnunarinnar. APS MCC námskeiðið kynnir nýútskrifuðum flugmönnum vel fyrir vinnuumhverfi flugfélaganna.

APS MCC hefst með 5 daga kennslu í bóklegum fræðum áður en nemendur halda í verklega kennslu. Þar geta þeir valið milli þriggja þjónustuleiða, í fyrsta lagi Platínum þar sem þjálfunin fer öll fram í Boeing 757/767 flughermi, Gull þar sem fyrri hluti verklegrar þjálfunar fer fram í Alsim ALX flughermi skólans en sá seinni í Boeing 757/767 flughermi og Brons þar sem þjálfunin fer öll fram í Alsim ALX flughermi.

Focus Aero Solutions er íslenskt fyrirtæki með íslenskt kennsluleyfi frá Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) og býður uppá þjálfun fyrir bæði flugfélög og flugskóla. Markmið Focus Aero Solutions í samvinnu við Flugakademíu Íslands með þessu námsskeiði er að auka verulega líkurnar á því að umsækjendur komist í gegnum ráðningarferli flugfélaganna.

Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við Davíð Brá Unnarsson, skólastjóra Flugakademíu Íslands, fyrir nánari upplýsingar.

Sækja um