Fara í efni

Flugkennaranámskeið (FI(A))

Miðlaðu þekkingu þinni í háloftunum

Flugkennaraskírteinið (FI) undirbýr þig fyrir flugkennarahlutverkið. Á þessu 12 vikna námskeiði lærir þú hvernig á að undirbúa leiðbeiningar og veita verklega flugþjálfunartíma. Farið verður yfir helstu atriði kennslufræðinnar, sálfræði, mannlegrar getu og afköst samtvinnað við kennsluaðferðir, framkvæmd kennslu flugæfinga, meðhöndlun mistaka flugnema, gerð kennsluáætlana og notkun kennslutóla, auk skjalavistunar og gerð prófa og annara skjala. Einnig er farið í fyrirlestrasmíði og framsögu sem er kennt og þjálfað með styttri og lengri fyrirlestrum í kennslustofu ásamt tækni í vendinámi.

Flugkennaranámið er góð leið til að öðlast frekari reynslu eftir að þú hefur lokið við atvinnuflugmannsnámið, og það veitir þér tækifæri til að bæta flugmannshæfileika þína sem eru eftirsóttir af flugrekendum, s.s. samvinnu tveggja flugmanna, greina hættur og grípa inn í þegar þess gerist þörf og leiðbeina öðrum flugmanni í réttan farveg.

Inntökuskilyrði

Umsækjandi skal annað hvort vera handhafi að:
  • CPL(A) flugskírteini
  • PPL(A) flugskírteini, með heildarfartíma 200 klst, þar af 150 klst sem flugstjóri (PIC) og hafa lokið bóklegu ATPL(A) námi.
Einnig skal umsækjandi að námskeiði uppfylla eftirfarandi skilyrði:
  • Vera með 30 klst fartíma á SEP (einshreyfils flugvél með bulluhreyfli), þar af skulu 5 klst vera flognar s.l. 6 mánuðum fyrir inntökuprófið að námskeiðinu.
  • 10 klst fartímar fengnir í blindflugi, þar af mega 5 klst vera í flugaðferðarþjálfa (FNPT) eða flughermi.
  • 20 klst fartíma í landflugi (cross country) sem flugstjóri (PIC), þar af skal eitt flug vera 300 NM að lengd, með tveimur stöðvunarlendingum á mismunandi flugvöllum öðrum en brottfararflugvelli.
  • Standast verklegt inntökuflugpróf með flugkennara sem er tilnefndur af yfirflugkennara. Inntökuflugpróf má þreyta allt að 6 mánuði fyrir upphaf námskeiðs.
  • Vera handhafi að 1. flokks flugheilbrigðisvottorði.

 Bóklegt nám

Bóklegur hluti námsins er 125 stunda kvöldnámskeið sem er kennt á kvöldin. Námskeiðið veitir réttindi til flugkennslu. Náminu skal vera lokið innan 6 mánaða frá upphafi námskeiðsins.

Kennslutækni (Teaching and Learning)

Kjarni kennslufræðinnar eru kennd á um 2-3 vikum þar sem farið er yfir helstu atriði kennslufræðinnar, sálfræði, mannlegrar getu og afköst samtvinnað við kennsluaðferðir. Einnig er farið í fyrirlestrasmíði og framsögu sem er kennt og þjálfað með styttri og lengri fyrirlestrum í kennslustofu ásamt tækni í vendinámi.

Æfing

Næsti hluti bóklegrar kennslu felst að mestu leiti um æfingu,undir leiðsögn leiðbeinanda, þar sem nemendur læra að beita fyrrgreindum fræðum og aðferðum. Er þá nemendum ýmist gert að undirbúa sig og æfa heima, með öðrum samnemendum eða raunverulegum nemendum í stuðningshópum. Með þessu gagnvirka námi fá nemendurnir krefjandi verkefni og reynslu með raunverulegum nemendum ásamt leiðsögn frá reyndum kennurum.

Verklegt nám

Verkleg þjálfun samanstendur af 30 kennslustundum í flugvél og flughermi með reyndum flugkennara ásamt æfingu og reynslu í kennslu í fyrir- og eftirflugskennslu.

Hérna sameinast kennslufræðin, flugfærnin og aðferðir við að sýna, styrkja og leiðbeina flugnemum við hinar ýmsu aðstæður. Nemendur æfa sig í 25 klst með reyndum kennara og 5 klst með öðrum flugkennaranema.

Námskeið fyrir flugkennara

Flugkennarar halda við eða auka réttindi sín sem flugkennarar bæði með reynslu og námsskeiðum. Flugakademía Íslands býður úrval námskeiða fyrir flugkennara til upprifjunar og endurnýjunar réttinda.

Skoða námskeið

Sækja um