Frá forstöðumanni tæknifræðinámsins

Keilir býður í samstarfi við Háskóla Íslands upp á tvær þverfaglegar námsbrautir í tæknifræði, framleiðslutæknifræði og mekatróník hátæknifræði. Námið er  á vegum Háskóla Íslands, þ.e. nemendur verða skráðir við HÍ og munu útskrifast þaðan.
 
Færni og sjálfsöryggi útskrifaðra nemenda er mikilvæg. Til þess að byggja upp færni, sjálfsöryggi og dýpri skilning er nauðsynlegt að hafa stóran hluta námsins verklegan. Áhersla er því lögð á að hinn bóklegi þáttur námsins sé sannreyndur með verklegum æfingum, að nemendur fái tækifæri til þess að prófa fræðin á sjálfstæðan, ítarlegan og vísindalegan hátt, og að kennslan verði á forsendum tæknigreina. Verklegu æfingarnar eru byggðar þannig upp að nemendur öðlist æfingu í verkefnum sem endurspegla þau verkefni sem þeir eiga eftir að fást við þegar út á vinnumarkaðinn verður komið. Þannig helst námsefnið lifandi í hugum fólks.
 
Persónuleg kennsla vegur þungt í því að ná fram markmiði okkar um að útskrifa nemendur með framúrskarandi þekkingu og færni á sínu kjörsviði. Til viðbótar starfa kennarar hjá okkur sem hafa brennandi áhuga á viðfangsefninu og áhugi þeirra smitast yfir á nemendur. Það er þekking og færni útskrifaðra nemenda sem á endanum segir til um gæði námsins. Mikilvægt er að nemendur geti spjarað sig úti í hinum stóra heimi eftir nám. Lögð er áhersla á að þegar námi lýkur geti nemendur okkar tekist á við og stjórnað verkefnum, allt frá hugmynd og gegnum hönnunarferli til framleiðslu og markaðssetningar. 
 
Þekking og reynsla nemenda úr atvinnulífinu eykur á fjölbreytileika námsins og verður til þess að þeir læra hver af öðrum og jafnvel kennarar af þeim. Því má ekki gleyma að markmiðum skólans verður ekki náð nema að til okkar komi hæfir, skapandi nemendur sem eru tilbúnir að leggja á sig krefjandi háskólanám. Enginn afsláttur verður gefinn, námið verður krefjandi!
 
En námið verður líka skemmtilegt! Strax í upphafi náms verður nýnemum þjappað saman og liðsheild mynduð og áhersla lögð á að nemendur nái og vinni vel saman. Þetta er mikilvægt þar sem hópurinn á eftir að starfa náið saman út námið.
 
Að grunnámi loknu, hafa nemendur okkar nokkra spennandi valmöguleika. Nemendur geta sótt um lögverndað starfsheiti tæknifræðings til iðnaðarráðuneytisins og haldið út á atvinnumarkaðinn sem fullgildir tæknifræðingar, þar sem mikill skortur er á háskólamenntuðu starfsfólki. Nemendur geta einnig farið erlendis til að ljúka mastersgráðu í tæknifræði, eða bætt við sig ákveðnum raungreina- og verkfræðifögum til að fá samþykkt inn í mastersnám í verkfræði hjá Háskóla Íslands.
 
Tæknifræðinámið sem Keilir býður upp á er, eins og ég sagði í upphafi, þróað í samvinnu við Háskóla Íslands. Háskóli Íslands ber ábyrgð á náminu en Keilir sér um framkvæmdina. Þetta þýðir að nemendur tæknifræðideildar Keilis verða í námi við HÍ og útskrifast þaðan. Sú ákvörðun Háskóla Íslands að fara af stað með nám í tæknifræði er í raun stærra skref en margir átta sig á í fyrstu. Með þessari ákvörðun er Háskólinn að viðurkenna mikilvægi tæknifræðinnar og býst ég fastlega við að margir tæknifræðingar fagni þessum tímamótum.
 
Að lokum vil ég hvetja alla þá sem bera hag tæknifræðinnar, Háskólans og Keilis fyrir brjósti að hafa samband ef þeir búa yfir upplýsingum sem geta orðið til þess að tæknifræðinámið hjá okkur verði enn betra.
 
Rúnar Unnþórsson
Forstöðumaður tæknifræðináms Keilis