Algengar spurningar um tæknifræðinám Keilis

Hér að neðan finnur þú samantekt af spurningum um tæknifræðinám Keilis, námið, kostnað og aðstöðuna. Auðvitað svörin við spurningunum líka. Smelltu á þá spurningu sem þú vilt fá svar við hér fyrir neðan.

 • Um tæknifræði, atvinnumöguleika, o.fl.

  • Hvað er tæknifræði?

   Tæknifræði er hagnýting fræðilegrar verkþekkingar í atvinnulífinu. Tæknifræðingar fást meðal annars við nýsköpun, vöruhönnun og þróun nýrra lausna úr þekktum einingum. Tæknifræði er ólík verkfræði þar sem verkfræði fjallar meira um hagnýtingu vísindaþekkingar og verkfræðilegra aðferða til að skapa fræðilega verkþekkingu.
  • Hvað er mekatróník?

   Mekatróník er nám í véla- og tölvutæknifræði þar sem áhersla er lögð á að hagnýta tæknifræði á mörgum sviðum samtímis. Námið byggir á sterkum áherslum í tölvu-, vél-, og rafmagnsfræðum þar sem stærðfræði- og eðlisfræðilegum aðferðum er beitt á hagnýtan hátt við lausn verkefna í hátækniiðnaði.
  • Hvernig nýtist nám í mekatróník?

   Nemendur sem hafa lokið námi í mekatróník eiga að geta gengið í alls konar störf þar sem stýringar, mælingar og rafeindatækni nýtist - sviðið er afar stórt og fer stækkandi. Til að mynda nýtist mekatróníknámið í störf fyrir fyrirtæki eins og Marel og Össur. Auk þess eru nokkur mekatrónísk störf hjá orkuveitunum og álverunum. Þetta er ein af þeim tæknigreinum sem er að vaxa hraðast í dag.
  • Hvað er framleiðslutæknifræði?

   Nám í framleiðslutæknifræði leggur áherslu á efna- og líftækniferla samhliða þeirri þekkingu sem þarf til að hanna tilsvarandi framleiðsluferla. 

   Námið nýtist þeim sem vilja vinna við nýsköpun, störf tengd orku- og matvælaiðnaði, fullvinnslu sjávar- og landbúnaðarafurða, líftækni- og lyfjaiðnað, efnavinnslu og notkun á umhverfisvænum orkugjöfum. Námslínan leggur áherslu á efnafræði, efnaferla og líftækni og nýtist þekking nemenda meðal annars við hönnun, rekstur og viðhald á framleiðslubúnaði í efna- og líftækniiðnaði. Þá nýtist námið þeim sem vilja vinna í orkufyrirtækjum, fyrirtækjum tengdum Auðlindagarðinum á Suðurnesjum (til að mynda CRI, Orf líftækni og Bláa lónið), Alvogen, Algalíf, Íslenskri erfðagreiningu og Matís, auk starfsemi í orkufrekum iðnaði.

  • Hvaða gráðu fæ ég eftir að hafa klárað iðntæknifræði?

   Þeir sem klára hjá okkur útskrifast með BSc gráðu í tæknifræði. Gráðan uppfyllir nauðsynleg skilyrði þess að geta sótt um lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur til iðnaðarráðuneytisins.  
  • Get ég sótt meistaranám, til dæmis hjá Háskóla Íslands eða REYST, eftir að hafa klárað iðntæknifræði?

   Já! Nemendur eiga að geta sótt um í annað háskólanám, til að mynda hjá Háskóla Íslands og REYST. Hins vegar er það mismunandi hvernig skólar meta nemendur inn - það fer eftir af hvaða námslínum þeir hafa útskrifast og í hvaða línur þeir eru að skrá sig í. Það getur því verið að nemendur þurfi að taka viðbótaráfanga til þess að halda áfram í meistaranám.
  • Hvað get ég gert eftir námið hjá ykkur?

   Að grunnámi loknu, þ.e. eftir BSc nám, hafa nemendur okkar nokkra spennandi valmöguleika. Nemendur geta sótt um lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur til iðnaðarráðuneytisins og haldið út á atvinnumarkaðinn sem fullgildir tæknifræðingar. Nemendur geta einnig farið erlendis til að ljúka mastersgráðu í tæknifræði. Einnig geta nemendur okkar bætt við sig ákveðnum raungreina- og verkfræðifögum til að fá samþykkt inn í mastersnám í verkfræði hjá Háskóla Íslands. Ekki hefur verið gengið frá því hvaða námskeið það verða.

  • Er eftirspurn eftir fólki sem er menntað í tæknifræði?

   Það er mikill skortur á starfsfólki með með háskólamenntun í tæknifræðigreinum. Þetta staðfesta aðilar vinnumarkaðarins og Samtök iðnaðarins. Í grein á vef SI árið 2010 kom fram að það væri mikil þörf á fólki með hvers konar verk- og  tæknimenntun, ekki síst á hugbúnaðar-, raf- og véltækni af ýmsu tagi. Vaxtargreinar þurfi á svona fólki að halda.
  • Hver eru kjör tæknifræðinga?

   Samkvæmt kjarakönnun Tæknifræðingafélags Íslands 2011 eru meðallaun tæknifræðinga á Íslandi yfir 600 þúsund krónur á mánuði.

 • Um námið, inntökuskilyrði, námsálag, o.fl.

  • Eru inntökuskilyrði í tæknifræði hjá Keili?

   Það eru sömu inntökuskilyrði í tæknifræðinámið hjá Keili og í verkfræði í Háskóla Íslands. Stúdentspróf af náttúrufræði- eða raungreinabraut er góður bakgrunnur fyrir nám í tæknifræði, en einnig tökum við á móti nemendum með stúdentspróf af öðrum brautum eða námi sambærilegu stúdentsprófi s.s.:
    
   1) 4. stigs próf frá vélstjórnarbraut Tækniskólans (áður Vélskóli Íslands) 
   2) Próf frá frumgreinasviði Háskólans í Reykjavík (áður Tækniháskóli Íslands/Tækniskóli Íslands) 
   3) Lokapróf frá Verk-og raunvísindadeild Háskólabrúar Keilis
    
   Kennslan í tæknifræði miðast við að nemendur hafi tekið að minnsta kosti 24 einingar í stærðfræði og 30 einingar í náttúrufræðigreinum (þar af a.m.k 6 einingar í eðlisfræði) í framhaldsskóla. 
  • Get ég hafið nám í tæknifræði ef ég er með iðnmenntun?

   Já. Við viljum gjarnan fá fólk í tæknifræðinámið sem hefur verkvit og þekkingu af verklegri nálgun. Í þeim tilfellum þar sem nemendur hafa ekki lokið stúdentsprófi, bjóðum við nemendum að taka þá áfanga sem vantar uppá í Háskólabrú samhliða háskólanáminu í tæknifræði.
  • Ég er ekki með stúdentspróf. Hvað get ég gert til að hefja nám hjá ykkur?

   Við bjóðum upp á einstaklingsmiðaðar lausnir og getum í sumum tilfellum brúað bilið milli framhaldsskóla og tæknifræðinámsins, meðal annars með tæknifræðibrú. Ef þig vantar meira uppá að hafa lokið stúdentsprófi getur þú sótt verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar annaðhvort í staðnámi eða fjarnámi áður en þú hefur nám í tæknifræðinni. Við mælum með því að þú bókir viðtal hjá námsráðgjafa Keilis og farir yfir málin.
  • Get ég hafið nám hjá ykkur ef ég hef ekki lokið nógu mörgum stærðfræðieiningum?

   Til að hefja nám í verk- og tæknigreinum þurfa nemendur að hafa lokið 24 einingum í stærðfræði á framhaldsskólastigi. Keilir býður nemendum sem vantar stærðfræðiáfanga á framhaldsskólastigi að taka svokallaða tæknifræðibrú samhliða háskólanámi í tæknifræði á fyrsta misseri námsins. Um er að ræða tvo stærðfræðiáfanga sem hvor um sig er 5 ECTS einingar.

   Þetta fyrirkomulag hentar til að mynda nemendum sem þurfa að rifja upp framhaldsskólastærðfræði, þeim sem hafa lokið stúdentsprófi án þess að vera með nægilega marga stærðfræðiáfanga (til dæmis af félagsfræðibraut) og þeim sem koma í háskólanám úr iðnnámi. Það er ekki óalgengt að nemendur sem hefja nám hjá okkur fari þessa leið. Einnig geta nemendur komið í stöðumat í stærðfræði til að kanna hvar þeir standa. Nánari upplýsingar um Tæknifræðibrú Keilis má nálgast hérna.

  • Hvernig metið þið hvar ég stend í stærðfræði?

   Markmið stöðumats er að gefa umsækjanda tækifæri til að fá yfirsýn á eigin þekkingu í stærðfræði. Spurningarnar meta hvort skilningur á grundvallarhugtökum sé til staðar, því er stöðumat ekki próf og verður ekki sett þannig upp. Stöðumatið er heldur ekki aðgangspróf í Keili heldur einungis umsækjanda til gagns svo hann geti metið hvaða námsefni hann þarf að rifja upp ef talsverður tími hefur liðið frá námi.

   Erfiðleikastig spurninga miðast við að nemendur þekki hugtök og geti beitt þeim á heppileg vandmál. Fjöldi spurninga er talsverður en það er vegna þess að verið er að skoða hvar almenn þekking liggur hjá einstaklingnum. 

   Innviði matsins er dreift og fellur í marga flokka og hluta, hver hluti verður ekki meira en 10 blaðsíður og skal umsækjandi spreyta sig á sem flestum hlutum á tilsettum matstíma. Þá verður svarblað gefið til umsækjanda þar sem þeir bókfæra svör sín. Matið er byggt á krossa-spurningum (multiple choice) og því mikilvægt að hafa svarblaðið nálægt og muna að skila. Nánari upplýsingar um stöðumat í stærðfræði má nálgast hérna.

  • Ég er búinn með eitthvað af námi á háskólastigi. Fæ ég metið það sem ég er búinn með?

   Best er að senda inn formlega umsókn með staðfestum yfirlitum frá þeim skólum sem þú hefur stundað nám hjá. Ef þú hefur háskólaeiningar sem eru sambærilegar á við kúrsa hjá okkur þá færðu þá metna, en það þarf að meta hvern kúrs fyrir sig.
  • Hversu langt er námið?

   Námið er rétt tæp þrjú ár - keyrslan er sú sama og í öllum háskólum á Íslandi, en við kennum lengur yfir árið, þ.e. hjá okkur er styttra sumarfrí. Sumarfríið er sex vikur. Hægt er að taka námið á lengri tíma og léttist þá jafnframt námsálagið.
  • Hvenær hefst námið hjá ykkur?

   Tekið er við nýnemum í tæknifræði tvisvar á ári, í byrjun ágúst og í byrjun janúar. Nánari upplýsingar um umsókn og umsóknarfrest er að finna hérna.

  • Hversu þétt skipuð er dagskráin hjá ykkur og er mikið námsálag?

   Námið er krefjandi en vinnuálagið er það sama og í öðru námi hjá HÍ eða 2 ECTS á viku. En það er afar einstaklingsbundið hvað mönnum finnst vera mikið álag.
  • Hvar get ég nálgast helstu upplýsingar um þjónustu hjá Keili?

   Nemendur geta nálgast allar helstu upplýsingar um aðstöðu, þjónustu, bókasafn, tölvumál, námsráðgjöf, íbúðir og samgöngur á Nýnemasíðu Keilis.

  • Hvernig er námsskipulaginu háttað?

   Þú getur séð kennslualmanak og stundaskrár í tæknifræðinámi Keilis hérna.

 • Um námsgjöld, námslán, framfærslu, o.fl.

  • Hversu há eru námsgjöldin hjá ykkur og hvernig er greiðslum háttað?

   Skráningargjöld eru 75.000 krónur á ári. Nýnemar sem innritast í nám á miðju háskólaári (í janúar) greiða 75% af skráningargjaldinu fyrir þá önn sem þeir hefja nám á.
  • Er námið lánshæft hjá LÍN?

   LÍN býður upp á framfærslulán.
  • Get ég unnið með náminu?

   Þetta er mjög einstaklingsbundið. Námið er skipulagt sem fullt nám. Reynslan hefur sýnt að þeir sem hafa unnið með náminu þurfa að taka námið á lengri tíma en skipulagning þess segir til um.
 • Um bækur, ítarefni, tengla, o.fl.

  • Eruð þið með bækur og ítarefni sem tengjast náminu?

   Bókasafn Keilis hefur undanfarin ár byggt upp afar gott safn tæknifræðirita og bóka. Upplýsingar um bókakost má nálgast á síðu bókasafns Keilis.
  • Ég er að leita mér að stærðfræðibókum til að undirbúa mig fyrir námið. Getið þið mælt með einhverju?

   Kennd verður Calculus bók (sú sama og síðasta haust eða nýrri útgáfa af henni) sem heitir Calculus: A complete course, eftir Robert A. Adams, 6. eða 7. útgáfa.

  • Ég ætla að sækja nám hjá ykkur í haust. Borgar sig að byrja að undirbúa sig strax eða er það bara rugl?

   Það er ekki rugl að spá í þessa hluti strax - það verður álag í náminu hjá okkur og því afar gott að koma vel undirbúin(n). 

 • Um nemendaíbúðir, aðstöðu, samgöngur, o.fl.

  • Er hagstætt að stunda nám hjá Keili og búa á Ásbrú?

   Já. Tæknifræðinám Háskóla Íslands og Keilis er eina tæknifræðinámið á Íslandi þar sem ekki eru rukkuð skólagjöld.

  • Hvernig er að búa á Ásbrú?

   Á Ásbrú hefur nú myndast öflugt samfélag námsmanna og fjölskyldna þeirra. Ásbrú er hluti af Reykjanesbæ sem er eitt af fimm stærstu sveitarfélögum landsins með ríflega 14.000 íbúa, en um 1.800 íbúar búa núna á svæðinu. Uppbygging og umgjörð svæðisins miðar að því að gera Ásbrú að fjölskylduvænu svæði sem gott er að búa á meðan á námi stendur. Lægsta leiguverð á námsmannaíbúðum á Íslandi er á Ásbrú, en allt að helmingi ódýrara getur verið að leigja íbúð á Ásbrú en í Reykjavík. Kynntu þér íbúðir og aðstöðu á Ásbrú hérna.

  • Ég á íbúð í Reykjavík. Get ég samt sem áður leigt á Ásbrú?

   Já. Nemendum okkar býðst að fá íbúðir á svæðinu á afar hægstæðum kjörum. Þetta þýðir að ef gætir til dæmis leigt út íbúðina þína fyrir hærri upphæð á meðan þú stundar nám hjá okkur.
  • Hvernig er aðstaðan hjá ykkur?

   Kennslan fer öll fram í nýju kennsluhúsnæði Keilis á Ásbrú. Þú getur skoðað myndir skólahúsnæðinu hérna.

  • Get ég komið í heimsókn?

   Þú ert velkomin(n) að koma í heimsókn til okkar til að skoða aðstæður. Hafðu bara samband við okkur fyrst á kit@keilir.net

  • Ég á heima í Reykjavík. Hvernig kemst ég í skóla hjá Keili?

   Þann 1. janúar 2015 hóf Strætó áætlunarferðir milli Höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar. Nánari upplýsingar á heimasíðu Strætó. Keilir hefur náð samningum við Strætó um samgöngukort sem gildir til og frá höfuðborgarinnar fyrir nemendur skólans. 

   Keilir greiðir þann kostnað sem fer umfram kostnað innanbæjar nemendakorts í Strætó á höfuðborgarsvæðinu (gjaldsvæði 1). Vinsamlegast hafið samband við afgreiðslu Keilis ef þið hafið spurningar eða athugasemdir á keilir@keilir.net.

   Nánari upplýsingar um nemakort má nálgast á heimasíðu Strætó og leiðabækur fyrir áætlunarferðir Stætó á Suðurnesjunum hér. Frítt er í strætisvagna í Reykjanesbæ sem gengur samkvæmt áætlun um öll hverfi bæjarins.

  • Hvað tekur það mig langan tíma að fara frá Reykjavík til Keilis?

   Rútan frá Háskóla Íslands að Keili tekur um 40 mínútur og um 20 mínútur frá Hafnarfirði.
 • Um nemendur, nemendafélag, félagslíf, o.fl.

  • Er nemendafélag í tæknifræðinámi Keilis?

   Já. Félag nemenda í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis heitir ASKIT