Aðstaða tæknifræðináms Keilis

Hafnarfjarðarbær og Háskóli Íslands hafa komist að samkomulagi um að háskólinn fái aðstöðu fyrir BS-nám í tæknifræði í Menntasetrinu við Lækinn og mun kennsla í nýju húsnæði hefjast strax á haustönn 2018. 

Sérhæfðar kennslu- og rannsóknarstofur á Ásbrú í Reykjanesbæ

 • Efnafræðistofa

  Efnafræðistofan er hönnuð með það í huga að sameina kennslu og rannsóknir/þróunarvinnu. Stofan skiptist í rannsóknarhluta þar sem helsti tækjakosturinn er geymdur og kennsluhluta þar sem nemendur sitja fyrirlestra og vinna verklegar æfingar í efnafræði. 

  Starfsemi efnafræðistofunnar er á sviði Orkurannsókna ehf. og spanna verkefnin allt frá efnagreiningum á útblæstri, eldsneyti eða öðrum vinnuvökvum yfir í rannsóknir á útfellingum og tæringu yfir í hreinsun kísils og umhverfismælingar. Meðal verkefna sem hægt er að vinna má nefna:

  Greiningar á lofttegundum sem losna út í andrúmsloftið
  • Mælingar á útblæstri frá sorpbrennslum og iðnaði svo sem þrávirkum lífrænum efnum (PBT,PCB o.fl.) og rokgjörnum lífrænum efnum (VOC).
  • Mælingar á brunagösum frá iðnaði svo sem kolmónoxíði, koltvíoxíði og brennisteinsoxíðum.
  • Mælingar á útblæstri jarðvarmavirkjana einkum koltvíoxíði, brennisteinsvetni, metani og eðallofttegundum.
  • Mælingar á loftgæðum í umhverfi sorpbrennslu og iðnaðar.
  Greiningar á ólífrænum efnum í vatni eða jarðvegi
  • Greiningar á þungmálmum og öðrum frumefnum í ösku frá sorpbrennslum.
  • Greiningar á söltum og kísli í jarðhitavatni.
  • Greiningar á mengunarefnum í sjó/vatni í nágrenni sorpbrennslu og iðnaðar.
  Eftirfarandi búnaður er til staðar í efnafræðistofu Keilis
  • Gasgreinir með massagreini (Gaschromatograph-MS) sem er ætlað til 
   magngreininga t.d. á þrávirkum efnum í umhverfinu.
  • Vökvagreinir (HPLC) sem hentar til greininga á lífrænum efnum t.d. niðurbrotsefnum í vatni og frárennsli.
  • Atomic absorbtion mælir til greininga á málmum og öðrum frumefnum.
  • Búnaður til dauðhreinsunar (autoclave) og ræktunar á örverum („incubator“) auk skilvinda.

 • Mekatróníkstofa

  Í mekatróníkstofunni er fjölþættur mæli- og rafeindabúnaður auk iðntölvustýringa, sem býður upp á þróun á hvers konar sjálfvirkum búnaði sem fléttar saman örtölvum, hugbúnaðargerð, rafeindabúnaði og vélbúnaði.

  Í stofunni eru unnin mekatrónísk verkefni sem tengjast fjölmörgum kúrsum sem kenndir eru í tæknifræði námi Keilis, meðal annars verkleg kennsla í rafmagnsfræði og rásasmíði. Einnig er þar unnin þróunarvinna á mekatrónískum kerfum þar sem örtölvur, hugbúnaðargerð og vélbúnaður fléttast saman. Sem dæmi um verkefni sem hér hafa verið unnin eru til að mynda gönguhermir sem líkir eftir göngulagi barna og dolly (kvikmyndavagn) sem notuð er við kvikmyndagerð sem og ýmis smærri verkefni.

  Mekatróník fjallar um það þegar véla- og tölvutæknifræði er notuð samhliða hönnun á vélbúnaði til þess að búa til sjálfvirkan eða vitrænan vélbúnað. Í mekatróník námi hjá Keili er lögð áhersla á að hagnýta tæknifræði á mörgum sviðum samtímis. Námið byggir á sterkum áherslum í tölvu-, vél-, og rafmagnsfræðum þar sem stærðfræði- og eðlisfræðilegum aðferðum er beitt á hagnýtan hátt við lausn verkefna í hátækni iðnaði.

 • Varma- og straumfræðistofa

  Varma- og straumfræðistofa gefur nemendum og rannsakendum kost á því að vinna að jarðvarma- og vökvafræði. Aðstaðan nýtist fyrir sérhæfð verkefni þar sem hægt er að líkja eftir raunaðstæðum í framleiðslu. Stofan er tilvalin til rannsóknar á sviðum jarðvarma, bæði tengdum framleiðslu og nýtingu orkunnar.

  Rannsóknarverkefni sem snúa að jarðvarma eru m.a. að nýta gufu til þurrkunar, nýting á affalli frá jarðvarmavirkjunum, rekstur og viðhald á varmaskiptum og borun eftir jarðvarmavökvum svo fátt eitt sé nefnt. 

  Varma- og straumfræðistofuna er einnig hægt að nota til þess að rannsaka nýtingu á óhefðbundnum eldsneytum eins og metan, vetni og metanóli sem og að nýta sjávarfallsorku. Meðal verkefna sem þarna hafa verið unnin eru tilraunir á framleiðslu á metangasi og þróun á grenndarlagsbúnaði sem kemur í veg fyrir útfellingar í jarðhitalögnum, auk fjölmargra verkefna sem fela í sér varma- og straumfræðilegar tilraunir.

 • Smiðja

  Skólinn býður nemendum og starfsmönnum upp á fyrsta flokks smiðjuaðstöðu til þess að þróa og smíða tækjabúnað. Smiðjan var áður íþróttahús en er nú búin öllum helstu verkfærum sem þarf til hefðbundinnar plast og málmvinnslu, auk þess sem um 1000fm opið vinnurými býður upp á einstaka aðstöðu fyrir þróunar- og tilraunaverkefni af ýmsum stærðum og gerðum. Við hönnun og frágang smiðjuaðstöðunnar var miðað við að uppfylla allar þær þarfir sem smíði minni tækjabúnaðar felur í sér - þ.e. búnaðar í módelstærðum.