Tæknifræðinám á vegum Keilis og Háskóla Íslands

Keilir býður upp á hagnýtt háskólanám í tæknifræði í samstarfi við Háskóla Íslands og er námið faglína undir Verkfræði- og náttúruvísindasviði skólans. Kennslan fer fram á vegum Keilis en nemendur eru skráðir í Háskóla Íslands og útskrifast þaðan. Með náminu er leitast við að koma til móts við síaukið ákall atvinnulífsins eftir öflugri og fjölbreyttri tæknimenntun á háskólastigi.

Um er að ræða þriggja og hálfs árs nám sem veitir auk B.Sc. gráðu, rétt til að sækja um lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur. Uppbygging námsins er með óhefðbundnu sniði en það fer fram allt árið fyrir utan sex vikna sumarfrí. Nemendur eiga því kost á að klára námið á þremur árum og komast þannig fljótt út á atvinnumarkaðinn með fagleg réttindi og sérþekkingu sem er sniðin að þörfum atvinnulífsins. 

Forkröfur og undirbúningur

Tæknifræði miðar að því að nýta þá verk- og tækniþekkingu sem er til staðar hverju sinni til þróunar á nýjum lausnum fyrir iðnað og atvinnulíf. Í náminu er því lögð áhersla á að byggja upp öfluga verkþekkingu samhliða fræðilegri grunnþekkingu með því að flétta saman bókleg fög og verkefnavinnu. Námið hentar því vel þeim sem koma úr tæknimiðuðu iðnnámi eða vélstjórnanámi og hafa aflað sér verkþekkingar á vinnumarkaði en einnig þeim sem hafa lokið hefðbundnu stúdentsprófi.

Keilir býður þeim sem ekki uppfylla forkröfur fyrir tæknifræðinámið að brúa bilið með stuttu og hnitmiðuðu undirbúningsnámi við Verk- og raunvísindadield Háskólabrúar Keilis. Ennfremur býðst nemendum sem vantar upp á bakgrunn í stærðfræði að taka undirbúningsnámskeið í stærðfræði við upphaf tæknifræðinámsins. 

Námslínur í boði

Tvær þverfaglegar námslínur eru í boði, orku- og umhverfistæknifræði og mekatróník hátæknifræði. Orðið mekatróník er samsett orð úr ensku heitunum mechanisms og electronics og snýst mekatróník um að nýta rafeinda- og hugbúnaðarfræði samhliða hönnun á vélbúnaði til að búa til sjálfvirkan vélbúnað. Námið nýtist þeim sem vilja vinna í hátækniiðnaði og við nýsköpun, t.d. við hönnun og smíði á búnaði sem eykur arðbærni í framleiðsluiðnaði eða bætir lífsgæði fólks.

Orku- og umhverfistæknifræði snýst um nýtingu vistvænnar, endurnýjanlegrar orku og aðferðir til að beisla, umbreyta, flytja og geyma hana. Áhersla er lögð á fjölþætta tækniþekkingu sem nýtist á flestum sviðum orkugeirans, m.a., efna-, véla- og rafmagnsfræði. Helstu viðfangsefnin eru nýting vistvænna orkugjafa eins og jarðvarmaorku, vindorku, lífræns eldsneyti o.fl. 

Orkurannsóknir ehf – tengsl tæknifræðinámsins við atvinnulíf

Í tæknifræðináminu er mikil áhersla á verklega kennslu, verkefnavinnu og náin tengsl við atvinnulíf og iðnað. Verkleg kennsla og tilrauna- og verkefnavinna nemenda fer fram í aðstöðu Orkurannsókna ehf, sjálfstætt starfandi einingu innan Keilis sem veitir sérhæfða rannsóknar- og stoðþjónustu fyrir atvinnulíf, iðnað og sprotarfyrirtæki. 

Starfsemi Orkurannsókna ehf fellst í rekstri eftirfarandi eininga:

  1. Efnarannsóknastofu sem búinn er háþróuðum tækjabúnaði til efnagreininga og örverurannsókna. Möguleg þjónustusvið eru  efnagreiningar á loftmengun og eldsneyti, söfnun og greiningar á þrávirkum efnum í umhverfi, rannsóknir á útfellingum og tæringu í jarðhitavatni og hagnýtar rannsóknir á nýtingu kísils og annarra efna í jarðhitavatni og rannsóknir tengdar sjávarútvegi og matvælaiðnaði.
  2. Mekatróníkstofu, sem býður upp á þróun á hverskonar sjálfvirkum búnaði sem fléttar saman örtölvum, hugbúnaðargerð, rafeindafræði og vélbúnaði.
  3. Smiðjuaðstöðu sem er búin öllum helstu verkfærum sem þarf til til hefðbundinnar plast og málmvinnslu.

Í bígerð er uppygging frekari aðstöðu eins og Varmafræðistofu, Eðlisfræðistofu, Tölvufræðistofu og votrýmisaðstöðu svo fátt eitt sé talið.

Vegna náinna tengsla við tæknifræðinám Keilis hafa Orkurannsóknir á að skipa öflugum sérfræðingum og skapast hafa tengsl milli atvinnulífs og tæknifræðinámsins þar sem nemendur hafa getað nýtt sér aðstöðu Orkurannsókna til að vinna að tæknitengdri nýsköpun og hagnýtum verkefnum tengdum atvinnulífi. Nemendur sem hafa hug á að byggja upp nýsköpunar- og sprotafyrirtæki að námi loknu geta einnig nýtt sér sérhæfða aðstöðu Orkurannsókna.  Við frumkvöðlasetrið Eldey á Ásbrú er nú starfsandi fyrirtækið Geosilica sem sprottið er úr jarðvegi tæknifræðináms Keilis og vinnur að þróun fæðubótarefna úr jarðhitavatni í samstarfi við tæknifræðinám Keilis. 

Uppsetning tæknifræðináms Keilis

Uppsetning tæknifræðináms Keilis er óvenjuleg að því leyti að námsárinu er skipt upp í þrjár tíu vikna lotur þar sem bókleg fög og verkefnavinna fléttast saman og tvær þriggja vikna verkefnalotur þar sem áhersla er lögð á raunveruleg viðfangsefni, gjarnan tengd atvinnulífi og nýsköpunarverkefnum. Með þessu óvenjulega kennslufyrirkomulagi verða námskeiðin styttri og hnitmiðari auk þess sem námið dreifist á fleiri vikur á árinu og námsálagið verður jafnara. Lengra námsár þýðir að hægt er að ljúka 80 ECTS einingum á ári í stað 60 eins og venja er á Íslandi, vera á námslánum allt árið og klára þriggja og hálfs árs nám á þremur árum.

Úttskriftarnemendur

Tæknifræðinám Keilis hefur verið starfrækt í tæp fimm ár og því þegar komnir tveir útskriftarárgangar. Útskrifaðir nemendur hafa m.a. farið í framhaldsnám í tæknifræði og skyldum greinum bæði hérlendis og erlendis, ráðið sig í vinnu til orkufyrirtækja,  hugbúnaðafyrirtækja, sprotafyrirtækja, á verkfræðistofur og til ýmissa fyrirtækja sem þjónusta atvinnulíf og iðnað. Að auki hafa nemendur stofnað sín eigin nýsköpunarfyrirtæki í framhaldi af lokaverkefnum sínum. 

Aðstaða og umhverfi á Ásbrú

Á Ásbrú hefur myndast öflugt samfélag námsmanna. Námsmenn í tæknifræði eiga kost á stórum og björtum íbúðum á  mjög hagstæðu leiguverði. Uppbygging og umgjörð svæðisins miðar að því að gera Ásbrú að fjölskylduvænu svæði sem gott er að búa á meðan á námi stendur. Boðið er upp á örar almenningssamgöngur milli allra svæða í Reykjanesbæ sem og reglulegra ferða milli Reykjanesbæjar og höfuðborgarsvæðisins, allt nemendum að kostnaðarlausu.

Á Ásbrú hefur orðið til skapandi umhverfi frumkvöðla og fyrirtækja með áherslu á nýsköpun og tæknigreinar. Að loknu námi býðst nemendum að nýta aðstöðu Orkurannsókna ehf auk þess sem þeim stendur til boða ódýr aðstaða í einu glæsilegasta frumkvöðlasetri landsins, Eldey, þar sem þeir geta stígið sín fyrstu skref við að þróa hugmyndir og koma sprotafyrirtækjum á legg. 

Að lokum

Í tæknifræðinámi Keilis öðlast nemendur mikla sérhæfingu og reynslu, en að auki veitir námið öfluga grunnþekkingu og breiðan bakgrunn sem nýtist við lausn krefjandi verkefna á fjölmörgum áhugaverðum sviðum, gerir nemendur hæfa til nýsköpunar í hátækniiðnaði og öfluga leiðtoga í atvinnulífi. 

Nánari upplýsingar um tæknifræðinám Keilis má nálgast á heimasíðu tæknifræðináms Keilis.

Umsóknarfrestur um nám er til 5. júní næstkomandi.


Tengdar fréttir