Production Process Automation

Xabier Þór Tejero Landa
Xabier Þór Tejero Landa

Dagana 26. - 29. maí fara fram varnir lokaverkefna hjá útskriftarnemum í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis. Kynningarnar fara fram í aðalbyggingu Keilis og eru öllum opnar nema annað sé tekið fram.

  • Heiti verkefnis: Production Process Automation
  • Nemandi: Xabier Þór Tejero Landa
  • Tímasetning: Þriðjudagur 26. maí, kl. 15:00

Lýsing: Þetta verkefni fjallar um hönnun og kostnaðargreiningu á sjálfvirkri stýringu (e. automation system) á fyrirliggjandi framleiðslukerfi. Framleiðslukerfið er örsíunarkerfi sem meðhöndlar kísilríkt skiljuvatn frá jarðvarmavirkjun til að framleiða mjög kísilríkt vatn sem ætlað er til inntöku sem fæðubótarefni. Framleiðslukerfið samanstendur af biðtanki þar sem kísilkornum í skiljuvatninu er leyft að fjölliðast og vaxa, og af hringrásarkerfi þar sem kísilmagnið í vökvanum er aukið og hann svo hreinsaður. Fyrirliggjandi kerfi er einnig endurbætt með sjálfvirkri losun á tilbúinni afurð úr kerfinu ásamt því að gera hreinsun á örsíu kerfisins sjálfvirkari.

Framleiðslan fer fram á frekar afskekktum stað svo brýn þörf er á að gera það mögulegt að stjórna og fylgjast með kerfinu með fjaraðgangi (e. remote access) um internetið. Þetta gerir stjórnendum kerfisins kleift að fylgjast með og stjórna kerfinu frá höfuðstöðvum fyrirtækisins, og þar með að lágmarka viðveru á framleiðslustað. Verkefnið er unnið fyrir sprotafyritæki sem ekki hefur mikið fjármagn og því er lögð mikil áhersla á að lágmarka kostnað með því að velja eins kostnaðarlega hagkvæma íhluti og mögulegt er, sem þó samrýmast öllum þeim kröfum sem gerðar eru til kerfisins.


Tengt efni