Nýtt nám í iðntæknifræði til BS gráðu

Frá og með haustönn 2017 mun Háskóli Íslands í samstarfi við Keili bjóða upp á nýja námslínu í iðntæknifræði fyrir efna- og líftækniiðnað. Á undanförnum árum hefur verið mikill skortur á fólki með tæknitengda háskólamenntun og er námslínunni ætlað að mæta breyttum áherslum í atvinnulífinu og nýjum tækifærum tengdum nýsköpun, þróun og hönnun framleiðsluferla.
 
Nám í iðntæknifræði nýtist þeim sem vilja vinna við nýsköpun, störf tengd orku- og matvælaiðnaði, fullvinnslu sjávar- og landbúnaðarafurða, líftækni- og lyfjaiðnað, efnavinnslu og notkun á umhverfisvænum orkugjöfum. Námslínan leggur áherslu á efnafræði, efnaferla og líftækni og nýtist þekking nemenda meðal annars við hönnun, rekstur og viðhald á framleiðslubúnaði í efna- og líftækniiðnaði. Þá nýtist námið þeim sem vilja vinna í orkufyrirtækjum, fyrirtækjum tengdum Auðlindagarðinum á Suðurnesjum (til að mynda CRI, Orf líftækni og Bláa lónið), Alvogen, Algalíf, Íslenskri erfðagreiningu og Matís, auk starfsemi í orkufrekum iðnaði.
 
Nám á vegum Háskóla Íslands á vettvangi Keilis
 
Háskóli Íslands og Keilir bjóða upp á fjölfaglegt og hagnýtt tæknifræðinám til BS gráðu á háskólastigi. Námið heyrir undir Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands en kennsla fer fram á vettvangi Keilis. Námið veitir rétt til að sækja um lögverndað starfsheiti tæknifræðings. Boðið er upp á tvær námslínur, en auk iðntæknifræði er boðið upp á nám í mekatróník hátæknifræði með áherslu á tölvu- og véltækni. Inntökuskilyrði eru stúdentspróf, fjórða stigs vélstjórnarpróf, lokapróf frá Verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar Keilis, eða sambærilegt próf frá öðrum skólum.
 
Tæknifræði hentar vel þeim sem hafa verkþekkingu, áhuga á lausnum og nýsköpun. Námið undirbýr nemendur vel fyrir krefjandi og fjölbreyttan vinnumarkað. Námið fer fram í fyrsta flokks rannsóknar- og kennsluaðstöðu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ, en á svæðinu hefur orðið til skapandi umhverfi frumkvöðla og fyrirtækja með sérstaka áherslu á nýsköpun og tæknigreinar.
 
Á heimasíðu Keilis má nálgast upplýsingar um Iðntæknifræði fyrir efna- og líftækniiðnað

Tengt efni