Mekano tilnefnt til Nordic Startup Awards

Sigurður Örn Hreindal, tæknifræðingur
Sigurður Örn Hreindal, tæknifræðingur

Nýtt fyrirtæki Sigurðar Hreindal, nemanda úr mekatróník hátæknifræðinámi HÍ og Keilis, hefur verið tilnefnt til Norrænna nýsköpunarverðlauna.

Fyrirtækið nefnist Mekano ehf. og stefnir að framleiðslu nýrra kynslóða fjöltengja. Um er að ræða samsett einingafjöltengi fyrir allar gerðir raftækja og er mun minna í sniðum en þau fjöltengi sem þekkjast í dag. Markmiðið er að fækka snúrum, nýta pláss betur, ásamt því að hanna fjöltengi í nýstárlegu og stílhreinu útliti. 

Í lok apríl var Mekano tilnefnt til Nordic Startup Awards sem besti nýliði sprotafyrirtækja á Íslandi, en þessi keppni er ein af helstu viðburðum í nýsköpun á Norðurlöndunum.

Sigurður Örn útskrifaðist úr tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis sumarið 2014 sem mekatróník hátæknifræðingur. Við útskriftina hlaut hann viðurkenningu frá Tæknifræðingafélagi Íslands fyrir lokaverkefni sitt sem gekk út á hönnun á sjálfvirkri nálavindivél fyrir netagerðarmenn. Þess má geta að hann var einnig nýverið kosinn í stjórn Tæknifræðingafélagsins þar sem hann gegnir stöðu gjaldkera, og ætlar að beita sér fyrir því að efla kynningarstarf í tæknifræði og frumkvöðlastarfsemi á Suðurnesjunum í starfsemi félagsins.

Í febrúar 2015 sendi hann viðskiptahugmynd Mekano í frumkvöðlakeppnina Gulleggið sem er haldið árlega af Klak Innovit ásamt fleiri fyrirtækjum, og hafnaði tillaga hans í öðru sæti auk þess að sópa að sér fjölda aukaverðlauna, meðal annars frá KPMG, Lögfræðistofunni Advel og Íslandsstofu. Eftir keppnina stofnaði hann fyrirtækið Mekano ehf. sem er staðsett í frumkvöðlasetrinu Eldey á Ásbrú. Þess má geta að fleiri útskrifaðir nemendur úr tæknifræðinámi HÍ og Keilis hafa aðsetur í Eldey, meðal annars Burkni Pálsson og Fida Abu Libdeh sem stofnuðu fyrirtækið GeoSilica Iceland útfrá lokaverkefnum sínum árið 2013.

Mekano stefnir á að koma fyrstu vörunum á markað um næstu áramót og hefja svo útflutning í framhaldinu. Nánari upplýsingar um Mekano má nálgast á heimasíðu fyrirækisins.


Tengt efni